Sport

Alfreð tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason vísir/getty

Alfreð Gíslason, handboltaþjálfari, var tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ á hófi samtaka íþróttafréttamanna og ÍSÍ í kvöld.

Heiðurshöll ÍSÍ var stofnuð árið 2012 í tilefni 100 ára afmæli sambandsins og er Alfreð sá nítjándi sem er tekinn þangað inn.

Alfreð er sigursælasti handboltaþjálfari Íslands en hann hætti þjálfun í sumar eftir ellefu ára starf hjá Kiel í Þýskalandi.

Alfreð stýrði Kiel til sex Þýskalandsmeistaratitla, sex bikarmeisetaratitla, vann Meistaradeildina með liðinu tvisvar og EHF bikarinn einu sinni.

Áður en hann tók við Kiel hafði hann verið í fjölda ára í við þjálfarastörf í Þýskalndi og stýrði meðal annars Magdeburg og Gummersbach.

Hann var landsliðsþjálfari Íslands frá 2006-2008 og stýrði landsliðinu á tveimur stórmótum.

Sem leikmaður varð Alfreð tvisvar þýskur meistari, bikarmeistari með KR á Íslandi og Bidasoa Irún á Spáni. Hann lék 190 leiki fyrir Ísland og skoraði 542 mörk.

Alfreð var valinn Íþróttamaður ársins árið 1989.

Í Heiðurshöllinni hittir Alfreð fyrir Vilhjálm Einarsson, Bjarna Ásgeir Friðriksson, Völu Flosadóttur, Jóhannes Jósefsson, Sigurjón Pétursson, Albert Sigurð Guðmundsson, Kristínu Rós Hákonardóttur, Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Karl Guðmundsson, Gunnar Huseby, Torfa Bryngeirsson, Ríkharð Jónsson, Sigríði Sigurðardóttur, Guðmund Gíslason, Geir Hallsteinsson, Jón Kaldal, Skúla Óskarsson og Hrein Halldórsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×