Bíó og sjónvarp

Adam Sandler sagður sýna stjörnuleik í væntanlegri mynd

Birgir Olgeirsson skrifar
Adam Sandler í Uncut Gems.
Adam Sandler í Uncut Gems. TIFF
Bandaríski leikarinn Adam Sandler er sagður sýna stjörnuleik í væntanlegri mynd sem verður sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto. Myndin ber heitið Uncut Gems en þar er Sandler sagður í góðu formi og mögulega á pari við það sem hann sýndi í Punch Drunk Love eftir Paul Thomas Anderson og einnig í The Meyerowitz Stories eftir Noah Baumbach.

Sandler hefur undanfarin ár verið þekktur fyrir gamanmyndir sem þykja ansi lágkúrulegar og latar en gagnrýnendur hafa keppst við að tæta þær í sig. Engu að síður státar Sandler af gífurlegum vinsældum en myndir hans eru með eitt mesta áhorfið á streymisveitum.

Í Uncut Gems leikur Sandler skartgripasala í New York sem er gæddur miklum persónutöfrum. Skartgripasalinn er ávallt á höttunum eftir næsta stóra feng en í myndinni leggur hann allt í sölurnar til að ná þeim stærsta.

Listrænn stjórnandi alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Toronto, Cameron Bailey, segir í samtali við IndieWire að Uncut Gems sé glæpatryllir sem gefi ekki tommu eftir.

„Og það er hressandi að sjá Sandler í sinni bestu frammistöðu síðan hann var í Punch-Drunk Love,“ segir Bailey.

Leikstjórar Uncut Gems eru bræðurnir Josh og Benny Safdie sem eiga að baki myndina Good Time sem skartaði Robert Pattinson í aðalhlutverki. Leikarinn hlaut mikið lof fyrir frammistöðu sína í þeirri mynd og var lengi vel orðaður við tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Aðrir leikarar í Uncut Gems eru Lakeith Stanfield, Idina Menzel, Judd Hirsch, Eric Bogosian, og Pom Klementieff. Netflix mun sjá um dreifingu myndarinnar á alþjóðavísu síðar á árinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×