Bíó og sjónvarp

Heimilisfaðirinn úr "Alf“ látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Wright (lengst til vinstri) ásamt leikarahópnum úr Alf árið 1987.
Wright (lengst til vinstri) ásamt leikarahópnum úr Alf árið 1987. Vísir/Getty
Max Wright, leikarinn sem var þekktastur fyrir að túlka hlutverk heimilisföðurins í gamaþættinum „Alf“ á 9. Áratugnum, er látinn, 75 ára að aldri. Wright greindist með eitilfrumukrabbamein árið 1995 en sjúkdómurinn er sagður hafa verið í rénun lengi.

Slúðurvefsíðan Tmz segir að Wright hafi andast á heimili sínu á Fögruströnd í Kaliforníu rétt fyrir utan Los Angeles. Eiginkona hans til áratuga, Linda Ybarrondo, lést af völdum brjóstakrabbameins fyrir tveimur árum. Þau áttu tvö börn saman.

„Alf“ voru vinsælir gamanþættir sem gengu í fjórar þáttaraðir frá 1986 til 1990. Þeir fjölluðu um geimveruna Alf sem brotlendir á jörðinni og hefur sérstakan smekk fyrir köttum. Wright lék Willie Tanner, heimilisföður fjölskyldunnar sem tekur Alf upp á sína arma.

Auk „Alf“ kom Wright fram í fjölda annarra þátta, þar á meðal „Vinum“, „Murphy Brown“, „Skammtastökki“ og „Staupasteini“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×