Fulltrúar félagsins hafa þó ekki aðeins sett sig í samband við Samgöngustofu en þeir hafa einnig óskað eftir fundi með Isavia. Þá hafa þeir óskað eftir því að félagið fái að taka á leigu flugskýli sem áður var leigt af WOW air.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að bandarískir flugrekendur hafi keypt allar eignir úr þrotabúi WOW air sem tengjast flugrekstri og greitt með eingreiðslu. Er markmiðið sagt vera að endurvekja lággjalda-flugrekstur á grunni WOW air.
Þá greindi Viðskiptablaðið frá því að kaupandinn væri M Ballarin og félag hennar Oasis Aviation Group. Í samtali við fréttastofu nú rétt fyrir fréttir kannaðist fulltrúi fyrirtækisins við málið en benti á Pál Ágúst Ólafsson, lögmann, sem er sagður aðstoða Ballarin í málinu. Samkvæmt vef félagsins sinnir það leiguflugi frá Bandaríkjunum til Afríku og sérhæfir sig meðal annars í flutningi vopna.

Páll Ágúst staðfestir þó ekki að Ballarin sé kaupandinn. Það eina sem hann geti sagt er að um ræði bandarískan aðila með áratuga reynslu af flugrekstri og flugtengdum rekstri. Kaupandinn sé alveg ótengdur hinu fallna WOW.
„Fyrst er að eiga náið og gott samtal við Samgöngustofu. Einnig þarf að eiga sér stað ítarlegri viðræður við Isavia og þegar þær eru allar komnar vel á veg þá hefur umbjóðandinn minn fullan hug af því að kynna sig með rækilegum hætti og þau tækifæri sem hann sér á þessum markaði,“ segir Páll.

„Það er umtalsvert mikið af gögnum sem þarf að skila inn. Það þarf að skoða þau leyfi sem umbjóðandi minn hefur nú þegar hvort það nýtist.“
Þá sé samtal við Isavia þegar farið af stað.
„Og leitað til þeirra um leigu á húsnæði“ um ræði húsnæði undir flugrekstrartengda starfsemi, svo sem fyrir varahluti sem keyptir voru úr þrotabúinu. Þá hafi átt sér stað óformlegt samtal við Airport Associates.
Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW, sagðist ekkert hafa um þetta mál að segja í samtali við fréttastofu í dag.