Lífið

Loftbelgnum brást bogalistin í beinni

Andri Eysteinsson skrifar
Þrátt fyrir hetjulega baráttu tókst belgurinn ekki á flug í tæka tíð.
Þrátt fyrir hetjulega baráttu tókst belgurinn ekki á flug í tæka tíð. Stöð2
Það er gömul saga og ný að það getur allt gerst í beinni útsendingu. Það sannaðist heldur betur í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þegar áætlað var að sýna frá í beinni útsendingu, í fyrsta sinn í íslenskri sjónvarpssögu, frá loftbelgsflugi og hugðist Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2 vera um borð í körfu loftbelgsins.

Loftbelgnum sem um ræðir er stýrt af þeim Mikael Klingberg og Anders Brobjer frá Noregi og Svíþjóð og vöktu þeir athygli borgarbúa í gærkvöldi er þeir flugu frá Reykjavíkurflugvelli að Höfða við Borgartún skömmu eftir klukkan ellefu í gærkvöld. Loftbelgurinn er hér staddur vegna flugsýningar sem haldin verður á Reykjavíkurflugvelli á morgun vegna 100 ára afmælis íslensks flugs.

Á ögurstundu gekk flugtakið þó ekki sem skyldi og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir flugstjóranna og hvatningarorð Kristjáns Más og Matthíasar Sveinbjörnssonar, forseta Flugmálafélags Íslands. Úr varð kostuleg uppákoma sem sjá má í spilaranum hér að neðan.

Þess ber þó að geta að loftbelgurinn og Kristján Már náðu á loft skömmu eftir að beinu útsendingunni var hætt.


Tengdar fréttir

Loftbelgurinn flaug bara örstutt í kvöld

Loftbelgurinn, sem kominn er til landsins vegna flugsýningarinnar í Reykjavík á morgun, fór aftur á loft í kvöld, í tengslum við beina útsendingu í fréttum Stöðvar 2.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×