Arsenal kláraði Fulham en gengur illa að halda hreinu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arsenal fagnar marki í dag.
Arsenal fagnar marki í dag. Vísir/Getty
Arsenal kom til baka eftir skellinn gegn Liverpool og vann 4-1 sigur á Fulham á heimavelli í öðrum leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Fyrsta færi leiksins fengu gestirnir frá Fulham og það var dauðafæri. Ryan Sessegnon slapp einn í gegn en skaut boltanum framhjá Bernd Lendo og markinu einnig.

Svissneski miðjumaðurinn Granit Xhaka skoraði fyrsta markið á 25. mínútu en hann skoraði þá eftir laglega sendingu Iwobi inn á teiginn. Varnarleikur Fulham þó ekki upp á marga fiska.

Arsenal tvöfaldaði forystuna eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Eftir frábært spil barst boltinn til Alexandre Lacazette sem þrumaði boltanum í netið. Honum var létt að komast á blað í dag.

Arsenal hefur ekki verið mikið í því að halda hreinu og þeir gerðu það heldur ekki í dag. Mistök í varnarleiknum urðu til þess að Ryan Sessegnon fékk boltann á kantinum og kom honum fyrir þar sem Aboubakar Kamara kom boltanum í netið.

Varnarleikurinn í Arsenal verið til vandræða en Liverpool skoraði fimm á þá í síðasta leik. Liðið hefur einungis haldið hreinu í einum leik af síðustu fjórtán í deildinni.

Heimamenn gerðu þó út um leikinn með tveimur mörkum áður en yfir lauk. Fyrst skoraði varamaðurinn Aaron Ramsey ellefu mínútum fyrir leikslok með laglegu skoti og síðan var það Pierre-Emerick Aubameyang sem skoraði enn eitt markið sjö mínútum fyrir leikslok.

Eftir sigurinn er Arsenal áfram í fimmta sæti deildarinnar með 41 stig en liðið er tveimur stigum á eftir Chelsea í fjórða sætinu. Chelsea leikur við Southampton á morgun.

Fulham er í meiri vandræðum. Liðið situr í nítjánda sæti delidarinnar en er þó bara einu stigi frá öruggu sæti í deildinni en sautján umferðir eru eftir af deildinni.

VIðtal við Unai Emery:
Viðtal við Claudio Ranieri:

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira