Lífið

Tárvot Lady Gaga þakkaði Bradley Cooper og söng Shallow af krafti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tilfinningarnar báru Gaga nær ofurliði þegar tilkynnt var um sigurvegarann í flokki poppdúetta.
Tilfinningarnar báru Gaga nær ofurliði þegar tilkynnt var um sigurvegarann í flokki poppdúetta. Getty/John Shearer
Tónlistarkonan Lady Gaga hreppti þrenn verðlaun á Grammy-verðlaunahátíðinni í gærkvöldi, þar af tvenn fyrir lagið Shallow úr kvikmyndinni A Star is Born. Þakkarræða Gaga á sviðinu í Los Angeles í gær þótti afar hjartnæm og þá sló kröftugur flutningur hennar á hinu umrædda Shallow í gegn.

Lagið var valið það besta í flokki kvikmynda- og sjónvarpstónlistar auk þess sem Gaga og meðleikari hennar í A Star is Born, Bradley Cooper, hlutu Grammy-verðlaunin fyrir besta poppdúettinn. Gaga kom á framfæri kærum kveðjum til Coopers í þakkarræðu sinni en hann var fjarri góðu gamni þar sem BAFTA-verðlaunahátíðin var einnig haldin í gærkvöldi.

„Ég vildi að Bradley væri hér hjá mér núna, hann er á BAFTA-verðlaunahátíðinni í Bretlandi. Ég veit fyrir víst að hann vildi vera hérna. Bradley, ég elskaði að syngja þetta lag með þér,“ sagði Gaga.

Að lokum benti hún á mikilvægi þess að fjallað sé hispurslaust um geðheilbrigðismál, sem eru einmitt í forgrunni í A Star is Born.

„Og ef ég fæ ekki annað tækifæri til að segja þetta – ég er svo stolt af því að vera hluti af kvikmynd sem tekur andleg veikindi til umfjöllunar. Það er svo mikilvægt,“ sagði Gaga og uppskar lófatak áhorfenda. Ræðuna má sjá í heild í spilaranum hér að neðan.

Hér að neðan má svo sjá kröftugan Grammy-flutning Gaga á hinu margverðlaunaða Shallow. Lagið hefur hlotið tilnefningar á öllum helstu verðlaunahátíðum vestanhafs það sem af er ári, þar á meðal Golden Globe-, Grammy- og Óskarsverðlauna.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.