Faðir Evu var sjónvarpsmaðurinn ástsæli Hermann Gunnarsson en hún kynntist honum fyrst á unglingsaldri og náði að mynd sterkt samband við Hemma þangað til hann lést skyndilega árið 2013.
„Ég kynnist honum seint en vissi alltaf af honum. Það var ekkert leyndamál í æsku hver væri pabbi minn og ég hitti hann oft þegar ég var yngri en hann var kannski ekki þá í sínu besta ásigkomulagi og var örugglega ekki tilbúinn til þess að tengjast okkur systkinunum,“ segir Eva Laufey um samband sitt við Hemma Gunn.
Varð að mjög góðu sambandi
„Þetta var ekkert alveg venjulegt fjölskyldulíf og svolítið flókið, ég viðurkenni það alveg. Ég kynntist honum vel þegar ég var orðin fullorðin en á unglingsárunum varð sambandið alltaf betra og betra og hann líka á miklu betri stað. Við kynntumst bara mjög vel og þetta var orðið að mjög góðu sambandi,“ segir Eva og bætir við að Hemmi hafi hjálpa henni með mjög margt.„Ég var svo þakklát fyrir það þegar hann dó að við höfðum átt svona góðan tíma saman og gott samband. Hann var byrjaður að hringja í mig og svona aðeins farinn að segja mér til og þá hugsaði ég að ég væri tvítug og þú getur ekki byrjað núna,“ segir Eva Laufey og hlær.
„Ég kynnist systkinum mínum líka seint og ég man eins og það hefði gerst í gær þegar ég fær póst frá Eddu [Hermansdóttur] þegar ég var 13 ára þar sem stóð. Hæ ég heiti Edda og er systir þín. Þarna höfðum við aldrei talað saman. Það er svo merkilegt að kynnast nýju og nýju fólki sem eru systkinin þín. Ég ólst upp með mínum systkinum og svo allt í einu á ég fimm önnur sem ég þekki ekki neitt og er búin að kynnast þeim hægt og róleg.“
Eva segir að þær Edda séu mjög líkar.
„Það er svo gaman að sjá hvað við eigum mikið sameiginlegt þó að við ólumst ekki upp saman.“
Eva segir að barnæskan hafa stundum verið flókin.
„Ég vissi hver þetta væri en þekkti hann samt ekki. Það voru alveg hittingar en mér fannst hann aldrei vera pabbi minn þegar við vorum yngri, þetta var meira svona frændi minn því að ég ólst upp með mínum pabba Steindóri sem var mér bara alltaf sem pabbi af því að ég þekkti ekki neitt annað. Hemmi var svona í fjarska og ég vissi alltaf af honum.
En það sem var kannski svo flókið þegar maður er lítill er að aðrir vita að þetta sé Hemmi Gunn og leit ekki á hann sem einhver Hemmi Gunn. Það var því flókið þegar allir krakkarnir í bekknum voru að spyrja mig hvað Hemmi gaf mér í gjöf og hvort ég væri ekki alltaf að fara í þáttinn til hans. Svo var ekki raunin og það var oft svolítið erfitt og ég man að ég stóð mig alveg að því, og hef örugglega ekki sagt neinum, að maður byrjaði að búa til sögur fyrir þau með gjafir og annað því að ég skildi ekkert af hverju þetta væri svona. Ég var kannski aðeins meðvirk með ástandinu,“ segir Eva Laufey og bætir við.
„Þetta var oft mjög flókið og ég vissi ekkert hvernig maður ætti að vinna úr þessu.“
Í þættinum ræðir Eva Laufey meðal annars um það hvernig hún náði að tuða sig inn í sjónvarpsbransann, æskuna og æskuástina, fósturmissinn, hvernig hún fer að því að tapa fyrir Gumma Ben í Ísskápastríðinu og margt fleira.
Hér að ofan má sjá þriðja þáttinn af Einkalífinu en þátturinn vikulegi er í loftinu á fimmtudögum á Vísi og Stöð 2 Maraþon.