Viðskipti innlent

Gisti­nætur ferða­manna: Aukningin mest á Suður­landi en sam­dráttur á Vest­fjörðum

Atli Ísleifsson skrifar
Heildarfjöldi gistinátta árið 2018 jókst um 1,1 prósent milli ára.
Heildarfjöldi gistinátta árið 2018 jókst um 1,1 prósent milli ára. vísir/vilhelm
Gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru tæplega 10,4 milljónir á síðasta ári, en þær voru um 10,3 milljónir árið 2017.

Þetta kemur fram í frétt Hagstofunnar, en hlutfallslega var aukningin mest á Suðurlandi eða 8,6 prósent. Samdrátturinn var mestur á Vestfjörðum, eða 8,1 prósent.

„Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 5,9 milljónir. Gistinætur á tjaldsvæðum voru tæplega 1 milljón, um 1,7 milljón í annarri gistingu og um 1,8 milljón í gegnum vefsíður á borð við Airbnb.

Þar að auki voru gistinætur erlendra ferðamanna tæplega 270.000 í bílum utan tjaldsvæða og um 194.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Breyting milli ára eftir landssvæðum.Hagstofan
Heildarfjöldi gistinátta árið 2018 jókst því um 1,1% milli ára, þar af var 5,1% aukning á hótelum og gistiheimilum, 10,2% samdráttur á tjaldsvæðum, 0,3% fækkun í annarri gistingu og 3,3% samdráttur á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður,“ segir í fréttinni.

Ennfremur segir að tekjur gististaða sem seldu gistinætur í gegnum Airbnb hafi verið 17,5 milljarðar á síðasta ári og er það aukning um 19 prósent milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×