Handbolti

Einar Andri: Getur allt gerst í úrslitakeppninni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar.
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar. Vísir/Bára
Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, var svekktur með þriggja marka tap fyrir Haukum í Hafnarfirði í dag. Þrátt fyrir að Afturelding hafi unnið fáa leiki að undanförnu telur hann að hans menn geti valdið öðrum liðum usla í úrslitakeppninni.

„Mér fannst við meðvitundarlausir í fyrri hálfleik en Arnór hélt okkur á floti með markvörslu sinni. Við fórum vel yfir þetta og spiluðum frábæran seinni hálfleik, sérstaklega á 20 mínútna kafla,“ sagði Einar Andri. „En það var því miður ekki nóg.“

Einar Andri segir að hans menn þurfi að spila vel í 60 mínútur gegn öllum liðum til að vinna leiki, ekki síst Hauka á Ásvöllum.

„Annan leikinn í röð lendum við í því að klúðra mörgum dauðafærum í upphafi leiks sem dregur úr okkur tennurnar. Við vorum bara ekki klárir í slaginn í fyrri hálfleik, hverju sem um er að kenna,“ sagði hann.

Afturelding hefur ekki unnið leik síðan snemma í febrúar en Einar Andri vonar að það sé ekki að setjast á sálina hjá hans mönnum.

„Við erum nýbúnir að gera jafntefli við Val og FH. Þetta er allt í okkar höndum og við þurfum helst að ná í 2-4 stig til að tryggja okkur inn í úrslitakeppnina. Mér finnst vera stutt í þetta hjá okkur en það er líka margt sem við þurfum að laga.“

Einar Andri neitar því ekki að tímabilið hafi verið erfitt, mörg stig hafi farið í súginn í jöfnum leikjum.

„Það á líka að gefa okkur sjálfstraust, okkur hefur gengið vel með bestu liðin. Við höfum spilað góða leiki og getan er til staðar. Við þurfum bara að koma okkur í úrslitakeppnina og ég tel að það getur allt gerst þar.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×