Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Hljótum að vera að gera eitthvað rétt fyrst KR reyndi ekki að spila fótbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Svekkelsið er gríðarlega mikið. Það er ótrúlega sárt að hafa tapað þessum leik. Mér fannst við ekki eiga skilið að tapa eins og leikurinn þróaðist. En því miður endaði þetta svona,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í samtali við Vísi eftir tapið fyrir KR, 2-1, í úrslitaleik Lengjubikars karla í kvöld.

Jóhannesi Karli fannst lítið til spilamennsku KR í leiknum í kvöld koma.

„KR skoraði úr þessu eina færi sem þeir fengu í seinni hálfleik. Við fórum inn í hálfleik með jafna stöðu og í fyrri hálfleik var jafnræði með liðunum. KR kom bara til að dæla löngum boltum fram. Við hljótum að vera að gera eitthvað rétt fyrst KR reyndi ekki einu sinni að spila fótbolta, sérstaklega í fyrri hálfleik,“ sagði Jóhannes Karl.

„Þeir spörkuðu boltanum nánast beint úr öftustu línu og fram; reyndu að negla honum upp í hornin. Þeir voru hræddir við okkur og við ætlum að taka það með okkur út úr þessum leik. Við gáfum boltann frá okkur á fáránlegum stað þegar þeir skoruðu annað markið sitt. Eftir það reyndi KR ekki að skora. Við erum nýliðar í þessari deild og við ætlum að taka sjálfstraust með okkur úr þessum leik. Ef KR eru hræddir við okkur sýnir það að við erum að gera eitthvað rétt.“

ÍA hefur leikið vel á undirbúningstímabilinu og Jóhannes Karl er sáttur með leikmannahópinn eins og hann er.

„Hópurinn er í toppmálum eins og sást í dag og hefur sést á undirbúningstímabilinu. Menn eru hægt og rólega að komast í sitt besta form,“ sagði Jóhannes Karl að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×