Lífið

Þetta er ekki bara reykvísk saga

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Margrét Müller.
Margrét Müller. Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Það eru tæplega átta ár síðan kynferðisbrot séra George, fyrrverandi skólastjóra Landakotsskóla, og Margrétar Müller, kennslukonu við skólann, komu upp á yfirborðið. Þóra Tómasdóttir, þá blaðamaður á Fréttatímanum, sagði á þeim tíma frá því að fagráð á vegum innanríkisráðuneytis hefði til meðferðar kynferðislegt ofbeldi gegn börnum í skólanum. Þolendur stigu fram og sögðu sögu sína í blaðinu.

Í ljós kom að kaþólska kirkjan var frá árinu 1963 ítrekað upplýst um framferði séra George en aðhafðist ekkert og hann hélt áfram að kenna börnum. Þolendur lýstu samtölum við presta kirkjunnar sem sögðu þeim einfaldlega að fyrirgefa séra Georg. Sérstök rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar var sett á laggirnar til að kanna viðbrögð kirkjunnar manna við þessum frásögnum og komst hún að því að biskupar og starfsmenn kirkjunnar brugðust skyldum sínum og tóku þátt í að hylma yfir brot gegn börnunum.

Ríkið áætlar að greiða hátt í 40 þolendum tæplega 300 milljónir í sanngirnisbætur vegna málsins. Sérstaka athygli vakti þó að kaþólska kirkjan sendi á sínum tíma frá sér yfirlýsingu þess efnis að henni bæri ekki skylda til að greiða bætur vegna málsins. Hún hefur þó greitt nemanda bætur vegna kynferðisofbeldis, en um er að ræða lágar fjárhæðir.

Gunnþórunn, Kristín Andrea, Margrét og Þóra eru sannfærðar um að umfang Landakotsmálsins hafi ekki komið fram áður og það sé umfangsmeira en áður var talið.Fréttablaðið/Ernir
Formlegum tengslum Landakotsskóla og kaþólsku kirkjunnar var slitið árið 2005 og skólinn er í dag sjálfseignarstofnun með allt aðrar áherslur en fyrri skóli. Séra George lést árið 2008 og Margrét Müller framdi sjálfsmorð fáeinum vikum síðar. Hún kastaði sér úr turni skólans þar sem séra George hafði leyft henni að búa, að vísu í óþökk margra starfsmanna skólans.

Þær Gunnþórunn, Þóra, Margrét og Kristín Andrea sem standa að heimildarþáttunum um þessa sögu eru sannfærðar um að umfang málsins hafi ekki komið fram áður. Íslenska ríkisstjórnin hafi þó unnið af myndarskap í að rannsaka málið og breytt lögum sérstaklega til að geta greitt Landakotsbörnum sanngirnisbætur.

Kaþólska kirkjan hafi ekki gengist fyllilega við ábyrgð sinni í málinu. Það þurfi að tengja Landakotsmálið við kerfisbundið ofbeldi gegn börnum sem viðgekkst í skjóli kirkjunnar víða um heim.

Sagði upp vinnunni fyrir verkið

Gunnþórunn á hugmyndina að verkinu og hafði samband við framleiðslufyrirtækið Skot Productions. Kristín Andrea tók að sér að framleiða verkið. Seinna komu Margrét og Þóra inn í teymið.

Gunnþórunn: „Þegar Þóra af­hjúpaði þetta mál á sínum tíma fékk það mikið á mig. Ég gekk í þennan skóla alla mína barnæsku, frá fimm ára til fimmtán ára. Margrét Müller kenndi mér þegar ég var átta ára gömul og séra George var skólastjórinn minn þar til ég varð tólf ára. Ég var barnshafandi að frumburði mínum þegar málið kom upp og fékk martraðir um þetta fólk í marga mánuði. Ef ekki ár. Ég laumaðist inn í skólann með bróður mínum þetta sumar eftir umfjöllun Fréttatímans og vildi ganga um skólann til þess að athuga hvort ég myndi eftir einhverju óvenjulegu. Það hvarflaði nefnilega aldrei að mér að ofbeldið sem þau beittu hefði verið kynferðislegt. En allir vissu að Margrét gat verið grimm við börn.

Ég gisti sjálf í turninum hjá Margréti og fór tvisvar sinnum í sumarbúðirnar í Riftúni þar sem maður varð vitni að alls kyns andlegu ofbeldi en sem saklaust barn er erfitt að gera sér í hugarlund hvort svona hegðun sé eðlileg eða ekki. Ég áttaði mig í raun ekki á því fyrr en mörgum árum seinna. Ég var mikið í kringum þetta fólk. Það má því segja að þetta mál hafi heltekið mig. Ég fylgdist með því hvernig það þróaðist í fjölmiðlum, þeim brotaþolum sem stigu fram og á ákveðnum tímapunkti fannst mér að það þyrfti að setja þetta umfangsmikla mál í samhengi og gera það upp . Ég sagði upp vinnunni minni á Morgunblaðinu til margra ára og settist á skólabekk í kvikmyndagerð. Í raun og veru til þess eins að afla mér þekkingar til þess að geta unnið að þessu eina verkefni. Ég leitaði svo til góðra vina, Ingu Lindar Karlsdóttur og Hlyns Sigurðssonar hjá Skot Productions, til að framleiða með mér.“

Þóra: „Ég var fengin í þetta verkefni af því að ég hafði fjallað mikið um það áður. Ég hafði áður gert atlögu að því að berja saman heimildarverk um Landakotsmálið. Mig hefur lengi langað til að gera því almennileg skil hvernig starfsfólk kaþólsku kirkjunnar fékk óáreitt að beita skólabörn hrottafengnu ofbeldi svo áratugum skipti. Nú virðist tími til kominn að horfast í augu við afleiðingarnar.“

Kristín Andrea: „Við teljum heimildarmyndaformið það sterkasta til að gera þessu máli góð skil og reyna að teikna upp heildarmynd af því sem viðgekkst innan skólans í áratugi. Það er mikill munur á því að lesa viðtal við manneskju í blaði og að sjá hana segja frá því í heyranda hljóði og mynd. Sá sem segir frá getur komið upplifun og tilfinningum betur frá sér á þann hátt. Tónn í rödd og svipbrigði geta oft sagt meira en orðin sjálf.“





Séra Georg við kennslu.Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Kirkjan maldaði í móinn

Margrét hefur yfirumsjón með handriti heimildarverksins. Hún er einn reyndasti handritshöfundur landsins en þetta er í fyrsta sinn sem hún vinnur með raunverulega atburði.

Margrét: „Þetta mál er náttúrulega ofboðslega umfangsmikið og ég var fengin inn til að þess að velja frásagnaraðferðina, sjónarhorn og framvindu. Það er algjörlega nýtt fyrir mér að vinna heimildarverk með þessum hætti en ég hef verið í skáldskap hingað til. Ég þurfti fyrst að átta mig á því hvernig maður skrifar handrit að einhverju sem er ekki orðið því við erum enn í rannsóknarvinnu. Við höfum í sameiningu reynt að búa til strúktúr en vitum allar að hann á eftir að breytast því þetta er lifandi ferli.“

Í rannsóknarvinnu sinni hafa þær komist að því að það er langt í land að málið sé að fullu uppgert.

Þóra: „Þeir þolendur sem vildu opna þetta mál stigu fram árið 2011 og í kjölfarið var stofnuð óháð rannsóknarnefnd sem Hjördís Hákonardóttir leiddi. Rannsóknarnefndin ræddi við 85 einstaklinga og niðurstaða nefndarinnar var áfellisdómur yfir kirkjunnar mönnum. Kaþólska kirkjan maldaði í móinn og brást við með því að stofna sitt eigið fagráð til að skoða málið betur. Afrakstur ráðsins var aldrei gerður opinber.

Það er ekki endilega markmið okkar að rannsaka málið alveg upp á nýtt. Mér finnst ég hins vegar þurfa að rísa undir ábyrgðinni sem því fylgir að hafa verið treyst fyrir þessu máli. 



Fjörutíu ára saga ofbeldis

Við höfum því varið drjúgum tíma í að skoða það betur, púsla brotakenndum frásögnum saman í eina heild og setja í samhengi við það sem hefur fengið að grassera innan kaþólsku kirkjunnar víða um heim.

Landakotsmálið er að minnsta kosti fjörutíu ára samfelld saga ofbeldis. Þar sem börn voru undir hælnum á manni sem var staðgengill biskupsins. Við vitum talsvert meira núna eftir að hafa rannsakað málið í meira en ár en eftir að ég hætti að skrifa um það í blöðin fyrir nokkrum árum.

Því miður virðist vera að það sé endalaust hægt að finna fjölskyldur sem urðu fyrir áhrifum, beinum og óbeinum. Við höfum heyrt margar fjölskyldusögur sem hafa endað illa.“

Gunnþórunn: „Það komu upp endalausir þræðir sem við höfum verið að fylgja frá því að við hófum rannsókn á ný á málinu. Ofbeldið stóð yfir í svo langan tíma og snerti svo ótrúlega marga. Ef maður hittir einhvern í Reykjavík, þá er nokkuð víst að það er einhver tenging. Þetta mál er órjúfanlegur hluti af sögu Reykjavíkur og spannar hátt í 40 ár.“



Málið er alþjóðlegt

Þær eru sammála um að þáttur kaþólsku kirkjunnar sé það sem almenningur viti hvað minnst um.

Kristín Andrea: „Það sem við vitum hvað minnst um er hlutverk kirkjunnar í þessu máli. Við vitum að það átti sér stað yfirhylming. Kirkjan stendur vörð um sitt fólk og hefur aldrei almennilega viðurkennt sinn þátt.“

Þóra: „Kaþólska kirkjan hér er varla öðruvísi en úti í heimi. Það sem gerðist hér á Íslandi er lýsandi fyrir mynstur sem viðgekkst víðar innan kirkjunnar. Þetta er ekki reykvísk saga, hún teygir sig til Hollands, til Evrópu og víðar.

Gunnþórunn: „Landakotsmálið er alþjóðlegt mál. Þessi mál koma upp í kaþólsku kirkjunni um allan heim. Alls staðar sömu sögurnar. Sömu aðstæður, sama mynstur.“

Kristín Andrea: „Kaþólska kirkjan hér á landi hefur verið nátengd kirkjunni í Hollandi og í Bandaríkjunum. Þar hafa komið upp gríðarlega mörg barnaníðsmál. Þótt þetta sé lítið útibú hér á Íslandi, þá er það hluti af þessari alþjóðlegu stofnun. Leyndarhyggjan er mikil og það er þekkt mynstur erlendis að þegar prestar hafa gerst sekir um að brjóta gegn börnum hafa þeir verið sendir í aðra sókn eða til annarra landa. Í raun bara færðir til í refsingarskyni.“



Refsi fyrir yfirhylmingar

Málin sem hafa komið upp síðustu ár varða tugþúsundir þolenda kynferðisofbeldis presta kaþólsku kirkjunnar.

Seint í febrúar lofaði Frans páfi að mæta ofbeldismönnum með „reiði guðs“ og að binda enda á að hylmt væri yfir kynferðisbrot innan kirkjunnar. Fórnarlömbin skyldu sett í forgang. Aldrei aftur yrði hylmt yfir kynferðisbrot. Frans páfi tók sterkt til orða og sagði að kynferðislegt ofbeldi gegn börnum minnti sig á hefðir um mannfórnir. Þeir prestar sem væru sekir um slíkt ofbeldi væru „verkfæri satans“.

Kristín Andrea: Það er áhugavert að fylgjast með því sem er að gerast í Páfagarði. Frans páfi virðist vera að gera skurk. Það hafa verið afhjúpanir í mörgum löndum og ég hugsa að kirkjan skynji vel þörfina á að gera eitthvað afgerandi. En skyldi það vera hægt? Það virðist margt rotið í þessu samfélagi og kannski verður að breyta stofnuninni í þeirri mynd sem hún er. Þessi mál koma sífellt upp, gömul og ný, og prestarnir halda áfram að hafa beint aðgengi að börnum.“

Þóra: „Ef við tölum um brotin í Landakoti þá eru þau fyrnd og gerendurnir látnir. En nú er þróunin sú að mönnum er ekki bara refsað fyrir að fremja brotin heldur líka fyrir það að hylma yfir þau. Hvað varðar kaþólsku kirkjuna hér á landi þá tóku starfsmenn kirkjunnar þátt í að hylma yfir brotin og fjarlægja sönnunargögn. Sumir þeirra eru enn að störfum.“

Kristín Andrea: „Og það er það sem við eigum við með að kaþólska kirkjan hafi í raun ekki viljað gera málið upp eða gengist við þeim brotum sem voru framin.“

Smánarlegar upphæðir

Þóra: „Upphæðirnar sem kaþólska kirkjan greiddi voru smánarlegar. Þær bætur sem greiddar voru þolendum voru greiddar af ríkinu og þar með okkur skattgreiðendum.“

Gunnþórunn: „Markmið okkar núna er að fólk fái tækifæri til að gera upp þessa tíma og deila sinni sögu. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að þetta mál var afhjúpað. Alls konar byltingar hafa átt sér stað og fólk hefur risið upp gegn hvers kyns mismunun. Við höfum nú þegar rætt við fjölmarga vegna málsins sem hafa treyst okkur fyrir sínum sögum og erum við afar þakklátar því trausti. Við óskum þess einlæglega að ef fleira fólk er tilbúið til að deila sinni sögu, að hafa samband við okkur og leggja okkur lið í rannsóknarvinnunni.“

Margrét: „Og í raun ætti kaþólska kirkjan að grípa þetta tækifæri líka því hún verður að leysa úr þessum málum.“

Þóra: „Við hvetjum alla þá sem vita af einhverju sem hefur átt sér stað að láta okkur vita. Við vitum líka að margir áttu góðan tíma í skólanum og að kirkjan reyndist þeim vel.“



Fóru á slóðir séra George

Rannsóknarvinnan teygir sig út fyrir landsteinana. Séra George var fæddur í Hollandi árið 1928 og gekk í drengjaskóla í Montfort-reglunni. Hann var vígður til prests í Oir­schot í Hollandi árið 1956 og kom til Íslands í kjölfarið og fór að kenna í Landakotsskóla. Margrét Müller var fædd í Essen í Þýskalandi og flutti til landsins 1954. Vann í fyrstu á St. Jósepsspítala en færði sig yfir í Landakotsskóla. 

Fjórmenningarnir fóru til Hollands skömmu fyrir áramót ásamt Bjarna Felix tökumanni til þess að rýna í æskuár og uppvöxt séra George.

Margrét: „Við erum að gera okkur gleggri mynd af þessu fólki. Hingað til hafa þau verið nánast eins og þjóðsagnapersónur. Og það eru sífellt að bætast mikilvæg brot inn í þá mynd. Auðvitað fáum við margar lýsingar frá fyrrverandi nemendum þeirra en við höfum líka talað við samstarfsfólk og aðra sem þekktu þau sem fullorðið fólk. Okkur finnst mikilvægt að vita meira um bakgrunn þessa fólks og hvað mótaði það.“

Kristín Andrea: „Við fórum til Hollands í rannsóknarferð í desember og fengum til liðs við okkur Bjarna Felix Bjarnason kvikmyndatökumann. Séra George var frá Suður-Hollandi sem mætti kalla eins konar biblíubelti þar í landi. Þar er kaþólski hluti Hollands og við ferðuðumst meðal annars á hans æskuslóðir.“

Gunnþórunn: „Við höfum skýrari mynd af því núna hvernig maður séra George var þegar hann kom til Íslands árið 1956 enda hittum við marga samferðamenn hans á ferð okkar sem voru tilbúnir til að ræða við okkur. Það var í raun eins og við hefðum verið leidd í gegnum þessa ferð. Það er einnig áhugavert að skoða bakgrunn Margrétar, sem ólst upp í Þýskalandi á stríðsárunum.“

Kristín Andrea: „Við erum í góðu sambandi við þá sem hafa rannsakað stórfelld kynferðisbrot gegn börnum í kaþólsku kirkjunni í Hollandi. En að minnsta kosti 20 þúsund börn urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi innan kirkjunnar þar í landi frá stríðslokum.“

Illska sprettur ekki úr tómarúmi, það er rannsóknarverkefni að reyna að átta sig á því hvað leiðir til ofbeldisverka. Fréttablaðið/Ernir

Trúin verður valdbeitingartæki

Og hvað með innræti þeirra? Veltið þið upp spurningum um illskuna í samhengi við trú?

Margrét: „Trúin hlýtur að spila stóran þátt. Hún verður valdbeitingartæki. Þá er ég ekki bara að tala um þau mál sem við erum að skoða. Það virðist vera algilt í þessu veldi trúarinnar. Því tæki er beitt til þess að ná valdi yfir fórnarlömbunum.

Þau bregðast börnunum, það verður algjört rof á trausti. Hvað varðar illskuna þá er eðlilegt að fólk velti þessu fyrir sér. Hvernig getur manneskja gert annarri manneskju þetta? Og sérstaklega barni. En illska sprettur ekki úr tómarúmi. Það er rannsóknarverkefni að reyna að átta sig á því hvað leiðir til ofbeldisverka á borð við þau sem um ræðir hér.

Þegar þetta mál kom upp árið 2011 þá kólnaði mér allri að innan. Elsti sonur minn hafði verið þarna einn vetur í fimm ára bekk og þá var séra George enn við völd og Margrét að kenna. Fyrsta hugsunin sem kom upp var: Barnið mitt var þarna í höndum þessa fólks! Ég spurði hann hvort hann hefði upplifað eitthvað og sem betur fer var það ekki.

En að hugsa sér hvað þetta mál hefur haft víðtæk áhrif. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig fólki líður sem starfaði í skólanum. Hve margir foreldrar sitja uppi með djúpstætt samviskubit. Og svo allir þeir sem höfðu eitthvað að gera með skólann. Margfeldisáhrifin af svona voðalegu ofbeldi eru svo rosaleg.“

Kristín: „Börnum sem voru alin upp í kaþólskri trú var kennt að presturinn væri framlenging af guði. Séra George kemur úr þannig umhverfi. Saklaus börn hafa þar af leiðandi verið berskjölduð gagnvart þessu valdi.“



Sameiginlegur skilningur

Gunnþórunn: „Fólk sem gekk í skólann býr í raun að sameiginlegri reynslu. Hvort sem brotið var á því eða ekki. Það er svo magnað að ef maður hittir einhvern sem gekk í skólann á þeim tíma sem Margrét Müller og séra George voru við stjórnvölinn, þá myndast einhver sameiginlegur skilningur sem enginn annar getur gert sér í hugarlund. Margrét gerði mikið upp á milli barna og maður geymir margar sögur af henni. Þetta ofbeldi var marglaga og flókið.“

Þóra: „Við erum líka að horfa á ábyrgð skólakerfisins. Þessi skóli var hluti af íslenska skólakerfinu þó að hann hafi verið starfræktur af kaþólsku kirkjunni. Þess vegna hefur íslenska ríkið reitt fram sanngirnisbætur. Til þess að rétta hlut nokkurra. En langt því frá allra. Við teljum okkur vita af fólki sem er látið sem gat aldrei sagt frá því sem mótaði líf þess.“

Kristín Andrea: „Það er mikilvægt að gera þessi mál vel upp og koma í veg fyrir að svona nokkuð geti gerst aftur. Það sem er að gerast í Hollandi er að kirkjurnar þar eru að tæmast, öfugt við þróunina hér, vegna þessara mála sem hafa komið upp og uppgjörsins við ofbeldið. Kaþólska kirkjan á Íslandi hefur stækkað ört. Það eru rúmlega 13 þúsund manns í henni í dag en hingað hafa flutt margir kaþólikkar undanfarinn áratug sem vita jafnvel ekkert um þennan hluta sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Þetta uppgjör þarf að fara fram hér líka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.