Handbolti

Stefán: Kæmi mér ekki á óvart að Valsmenn væru byrjaðir að panta hljómsveit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stefán hefur bæði gert Fram og Val að Íslandsmeisturum.
Stefán hefur bæði gert Fram og Val að Íslandsmeisturum. vísir/eyþór
„Ég er ósáttur að hafa ekki klárað þetta í venjulegum leiktíma. Við vorum í góðri stöðu,“ sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, eftir tap Íslandsmeistaranna fyrir Val í dag, 26-29. Valskonur eru nú 2-0 yfir í einvígi liðanna og með sigri á sunnudaginn verða þær Íslandsmeistarar.

Sandra Erlingsdóttir jafnaði fyrir Val úr vítakasti þegar venjulegur leiktími var runninn út. Stefán var ekki sáttur með þann dóm og ræddi lengi við dómarana eftir leik.

„Það er alltaf eitt og annað sem maður er ekki sáttur við en heilt yfir dæmdu þeir þetta vel,“ sagði Stefán.

Fram var í vænlegri stöðu undir lokin, tveimur mörkum yfir, en kastaði sigrinum frá sér.

„Við áttum tvær slakar sóknir og þær refsuðu með mörkum úr seinni bylgju. Við skiluðum okkur illa til baka og ég er ósáttur með það. Við áttum að klára þetta,“ sagði Stefán.

Valur var alltaf skrefinu á undan í framlengingunni sem liðið vann, 7-4.

„Oft er það þannig að liðið sem skorar fyrst vinnur. Þær skoruðu ódýr mörk og þá datt stemmningin niður,“ sagði Stefán.

Fram þarf að vinna á Hlíðarenda á sunnudaginn, annars verður Valur Íslandsmeistari. Stefán gat ekki stillt sig um að skjóta á Valsmenn.

„Við förum á Hlíðarenda til að vinna en það kæmi mér ekki á óvart að Valsmenn væru byrjaðir að panta hljómsveit fyrir sunnudaginn,“ sagði þjálfarinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×