Lífið

Aðdáendur urðu fyrir vonbrigðum með endurkomu Spice Girls

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Kryddpíurnar á tónleikunum í gær.
Kryddpíurnar á tónleikunum í gær. Getty/Dave J Hogan
Svo virðist sem að margir aðdáendur bresku hljómsveitarinnar Spice Girls hafi orðið fyrir talsverðum vonbrigðum á tónleikum sveitarinnar í Dublin í gær. Samfélagsmiðlar loguðu vegna kvartana yfir því að hljóðið á tónleikunum hafi verið mjög ábótavant og illa hafi heyrst í Kryddpíunum.

Endurkomu þeirra hafði verið beðið með mikilli eftirvæntingu enda í fyrsta sinn í sjö ár sem hljómsveitin spilaði á tónleikum. Í þetta skiptið voru fjórar Kryddpíur mættar til leiks, engin Victoria Beckham, og á dagskrá voru frægustu lög hljómsveitarinnar sem gerði allt vitlaust undir lok síðustu aldar.

Eitthvað virðist þó hafa farið úrskeiðis á tónleikunum þar sem sjötíu þúsund manns voru samankomnir á íþróttavellinum Croke Park en margir af helstu fjölmiðlum heims hafa fjallað um hljóðvandræðin.

„Það er eitthvað að þegar áhorfendur á Spice Girls-tónleikum sitja allir í sætunum vegna þess að enginn hefur hugmynd um hvaða lag er verið að spila vegna þess að hljóðið er SVO slæmt,“ skrifaði einn á Twitter á meðan á tónleikunum stóð. Með fylgdi myndband, sem sjá má hér að neðan, og þar má heyra að hljóðið mætti vera betra.

Svo virðist sem að vandamálið með hljóðið hafi aðeins hrjáð Kryddpíurnar því að einn Twitter-notandi benti á að ekkert hafi verið að hljóðinu í upphitunaratriðinu.

Mel B sagði á Instagram eftir tónleikana að hún vonaði að hljóðið yrði mun betra á næstu tónleikum hljómsveitarinnar í Cardiff.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.