Háðfuglinn John Oliver, sem stýrir hinum vinsæla Last Week Tonight, gerði sér þannig mat úr framgöngu Hatara í þætti sínum í gærkvöldi. Eftir upptalningu á mörgum af áhugaverðari atriðum keppninnar, til að mynda lýsti Oliver ástralska keppandanum sem „Elsu úr Frozen á priki,“ sagði þáttastjórnandinn að ekkert atriði hefði þó verið jafn sláandi og hið íslenska - „sem tók allt aðra stefnu.“
Því næst spilaði hann brot úr laginu, við mikla kátínu áhorfenda.
„Indælt! Loksins erum við komin með svarið við spurningunni: „Hvað myndi gerast ef þú myndir dreifa englaryki yfir sýningu hjá Chris Angel,“ sagði Oliver og vísaði þar til bandarísks töframanns.
„Ef þú spyrð þig hvers vegna þau telja sig hæf til að ræða alþjóðastjórnmál, þá er það raunar í ættinni,“ sagði Oliver og vísaði þar til þess að Einar Hrafn Stefánsson, trommari sveitarinnar, er sonur Stefáns Hauks Jóhannessonar, sendiherra Íslands í Lundúnum.
Eftir að hafa spilað brot úr „viðtali“ Good Morning Britain við Einar, sem tekið var á ströndinni í Tel Aviv á dögunum, sagði Oliver og lauk þannig innslagi sínu um Hatara: „Vá, þið gætuð verið að hugsa með ykkur að þetta sé vandræðalegasta barn stjórnmálamanns sem þið hafið nokkurn tímann séð. Leyfið mér þá að minna ykkur á tilvist Meghan McCain.“
Athygli vekur að John Oliver minntist ekki einu orði á palestínska fánann sem Hatari dró fram á úrslitakvöldinu, sem ætla má að hafi vakið hvað mesta athygli erlendra fjölmiðla um helgina.
Hér að ofan má sjá brotið með Hatara úr þættinum, sem er á dagskrá Stöðvar 2 á þriðjudagskvöldum.