Íslenski boltinn

KR og HK/Víkingur í 8-liða úrslit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
KR-ingar fagna.
KR-ingar fagna. vísir/ernir
KR er komið áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna eftir sigur á Keflavík. HK/Víkingur vann þægilegan sigur á Aftureldingu.

KR þurfti að hafa fyrir hlutunum í Keflavík en þessi lið sitja í fallsætum Pepsi Max deildarinnar. Leikurinn fór rólega af stað og var lítið um fína drætti í fyrri hálfleik.

Færunum fór fjölgandi eftir því sem leið á leikinn en markið lét á sér standa. Það var ekki fyrr en á 82. mínútu sem Guðmunda Brynja Óladóttir kom boltanum í marknetið og kom KR yfir.

Keflvíkingar náðu ekki að svara og lauk leiknum með 1-0 sigri KR.

Inkassodeildarlið Aftureldingar átti erfitt uppdráttar gegn HK/Víkingi í Kórnum. Esther Rós Arnarsdóttir skoraði fyrir heimakonur á 22. mínútu og þær leiddu með einu marki í hálfleik.

Þórhildur Þórhallsdóttir, Ástrós Silja Luckas og Fatma Kara gerðu sitt markið hver í seinni hálfleik og lauk leiknum með 4-0 sigri HK/Víkings.

KR og HK/Víkingur bætast því í hóp Selfoss, ÍA, Þórs/KA og Vals sem öll verða í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×