Verkefnið hefst í október næstkomandi en að því standa Tónlistarborgin Reykjavík, ÚTÓN og Icelandic Startups með stuðningi Senu Live, Samtóns og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Umsóknarfrestur er til 30. ágúst á vefsíðu verkefnisins.
Hraðallinn ber heitið Firestarter, Reykjavik Music Accelerator, og miðar að því að rækta tónlistarfrumkvöðla, styrkja umgjörð viðskipta og efla tengsl tónlistar við umhverfi nýsköpunar og tækni. Óskað er eftir umsóknum sem snúa að nýjum hugmyndum og verkefnum á sviði tónlistar og tæknilausna.
„Með hraðlinum viljum við styðja við umgjörðina utan um tónlistariðnaðinn, eitthvað sem hefur ekki verið gert áður á Íslandi. Við eigum sterka tónlistarsenu en lítinn iðnað og þar er virkilega möguleiki fyrir vöxt. Ég tel að yngri kynslóðir séu töluvert opnari fyrir tækifærum tengdum viðskiptahlið tónlistariðnaðarins,“ segir María Rut Reynisdóttir, verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur, í fréttatilkynningu.

Markmiðið að hraða ferlinu
Líkt og áður hefur komið fram hefst Firestarter í október og stendur hann yfir í fjórar vikur. Honum lýkur í nóvember á Iceland Airwaves með kynningum fyrirtækjanna á hugmyndum sínum fyrir fjárfestum, völdum ráðstefnugestum og öðrum lykilaðilum á sviði tónlistar.„Tónlist er vissulega listgrein, en til þess að hún blómstri líka sem starfsgrein þarf stöðuga endurnýjun í umhverfinu og nýjar hugmyndir fyrir nýja tíma með það í huga að við eru huti af stórum markaði sem nær hringinn í kringum hnöttinn,“ segir Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN.
Icelandic Startups hefur umsjón með verkefninu en Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdarstjóri Icelandic Startups, segir markmiðið vera að hraða ferlinu frá því að hugmynd kviknar og þar til viðskiptin fara að blómstra.
„Við leggjum mikla áherslu á alþjóðlega nálgun í allri umgjörð verkefnisins og tengsl við helstu fagaðila. Við erum afar stolt af þessu samstarfi og hlökkum til að taka á móti íslenskum tónlistarfrumkvöðlum í haust.”