Íslenski boltinn

Pepsi Max-mörkin: Afrekaskrá Pedros stutt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
ÍBV vann aðeins einn af tíu deildarleikjum undir stjórn Pedros.
ÍBV vann aðeins einn af tíu deildarleikjum undir stjórn Pedros. vísir/bára
Pedro Hipólito stýrði ÍBV í síðasta sinn þegar liðið tapaði fyrir Stjörnunni á heimavelli á sunnudaginn. Eftir leikinn var sá portúgalski látinn taka pokann sinn.

Eyjamenn eru í tólfta og neðsta sæti Pepsi Max-deildar karla með fimm stig eftir tíu umferðir og búnir að fá á sig 25 mörk. Strákarnir í Pepsi Max-mörkunum sögðu að brotthvarf Pedros komi lítið á óvart.

„Ráðningin var mikið í umræðunni og þótti sérstök. Fólk var hissa. Fótboltaheimurinn hefur svo beðið eftir þessu undanfarnar vikur. Liðið hefur hvorki verið fugl né fiskur og ekkert getað. Þetta kom alls ekki á óvart,“ sagði Atli Viðar Björnsson.

Eftir leikinn gegn Stjörnunni talaði Pedro um að leikmannahópur ÍBV væri ekki nógu sterkur og erfitt að fá leikmenn til Eyja.

„Er þetta ekki það sama og undanfarin ár? Það er erfitt að fá leikmenn. Við höfum heyrt það áður. Þeir hafa fengið marga erlenda leikmenn undanfarin ár og það var engin breyting þar á núna,“ sagði Þorvaldur Örlygsson.

„Í gegnum tíðina höfum við séð eitt lið hjá ÍBV í byrjun móts, annað þegar líður á og þriðja og jafnvel það fjórða um haustið. Við höfum séð sama liðið í allt sumar.“

Pedro stýrði ÍBV í tíu deildarleikjum. Eyjamenn unnu aðeins einn þeirra, gerðu tvö jafntefli og töpuðu sjö leikjum.

„Hann virtist heilla í samfélaginu og öllum virtist líka vel við hann. En kaflinn um afrekasögu hans hjá ÍBV verður stuttur,“ sagði Atli Viðar.

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max-mörkin: Stutt stopp hjá Pedro í Eyjum

Tengdar fréttir

Hipolito hættur hjá ÍBV

ÍBV og þjálfarinn komust að samkomulagi um starfslok. Ian Jeffs tekur tímabundið við þjálfun meistaraflokks karla.

Hipolito: Opinn fyrir því að þjálfa áfram á Íslandi

Pedro Hipolito var staddur á skrifstofu ÍBV í morgun að ná í dótið sitt er Vísir heyrði í honum hljóðið. Hann var rekinn sem þjálfari karlaliðs félagsins í gær. Hann tók tíðindunum ágætlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×