Í yfirheyrslum og tugum þúsunda skjala sem efnahags- og neytendastefnuundirnefnd eftirlitsnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fékk afhent kom fram að Juul ræki sérstaka deild sem ynni að því að fá skóla til að leyfa fyrirtækinu að kynna sig beint við nemendur. Í sumum tilfellum hafi Juul greitt skólunum til að fá aðgang að nemendum í tímum, sumarskólum og viðburðum um helgar, að sögn Washington Post.
Juul greiddi þannig jafnvirði rúmra sextán milljóna króna til að skipuleggja fimm vikna sumarbúðir fyrir áttatíu nemendur einkaskóla í Maryland. Á blaði var markmið búðanna að kenna börnunum um heilbrigðan lífsstíl, sérstaklega börn úr lægri stéttum sem væri sérstaklega hætt við að taka slæmar ákvarðanir varðandi heilsu sína. Yngstu börnin voru átta til níu ára gömul.
Tölvupóstar stjórnenda Juul sem þingnefndin fékk afhenta sýndu að sumir þeirra höfðu áhyggjur af því að verkefnis fyrirtækisins með börnum og ungmennum minnti ískyggilega á þau sem stóru tóbaksfyrirtækin höfðu rekið áður fyrr og voru harðlega gagnrýnd á sínum tíma.
Rafrettuframleiðendur eins og Juul hafa sætt gagnrýni fyrir brögð sem þeir hafa beitt til að ná til ungmenna, þar á meðal með fjölda bragðtegunda og með því að greiða áhrifavöldum á samfélagsmiðlum til að auglýsa rafrettur.

Fulltrúar Juul fullyrtu við þingnefndina að markhópur þess hefði verið frá upphafi fullorðið reykingafólk. Verkefnin sem náðu til barna og ungmanna hafi átt að fræða ungt fólk um hættur nikótínfíknar. Þeim hafi verið hætt eftir að fyrirtækið áttaði sig á að þau gætu verið litin hornauga.
„Juul er ekki eitt af stóru tókbaksfyrirtækjunum,“ sagði James Monsees, einn stofnenda fyrirtækisins, við þingnefndina. Juul er engu að síður í rúmlega þriðjungs eigu Altri-hópsins sem á tókbaksfyrirtækið Marlboro.
Fyrirtækið segist hafa hætt að auglýsa sig á samfélagsmiðlum í haust. Þá hafi bragðtegundum sem það býður upp á verið fækkað.
Táningar komu fyrir þingnefndina og báru vitni um að fulltrúar Juul hefðu sagt ungmennum í skólanum þeirra að rafrettur væru algerlega öruggar til notkunar en að þau ættu ekki að kaupa þær.