Nýliðar KA/Þór stóðu sig mjög vel í Olís deild kvenna síðasta vetur þar sem liðið hélt örugglega sæti sínu og var ekki langt frá því að komast í úrslitakeppnina. Liðið endaði í 5. sæti með níu sigra og nítján stig.
Það var ljóst að þetta samstarf Akureyrarfélaganna gekk mjög vel og það var full ástæða til að halda því áfram. Í gær var síðan undirritaður samstarfssamningur milli Þórs og KA um áframhaldandi rekstur handknattleiksliðs kvenna en liðið spilar undir nafninu KA/Þór. Þetta kemur meðal annars fram á heimasíðu Þórs þar sem má finna upplýsingar um nýja samninginn.
Þór og KA framlengja samstarf vegna rekstur KA/Þórs https://t.co/tVmu0Xc3r0#handboltipic.twitter.com/vTOYPTO0GN
— Íþróttafélagið Þór (@thorsport) August 8, 2019
Samningurinn er að fyrirmynd rekstrarforms knattspyrnuliðs Þór/KA en samstarf félaganna í handboltanum má rekja aftur til ársins 2003. Með nýju rekstrarformi ætla menn sér að bæta alla umgjörð liðsins og þannig leggja sitt að mörkum við að halda liðinu áfram í fremstu röð.
Rekstur KA/Þórs mun samkvæmt samningnum vera á kennitölu óstofnaðs rekstrarfélags KA/Þór. Liðið mun spila áfram í sömu búningum sem er í hlutlausum litum líkt og gert hefur verið undanfarin ár.
Samningur þessi gildir frá og með undirritun til maí 2022. Um endurskoðun á samstarfinu segir í samningnum ,,Að tveimur keppnistímabilum liðnum skulu samningsaðilar skoða framlengingu á samningi þessum og skal sú skoðun eiga sér stað eigi síðar en í maí 2021“.
Bæði félögin hafa skipað sex manna stjórn KA/Þórs það er þrír frá hvoru félagi.