Farþegafjöldi hjá Strætó bs. jókst um sex prósent á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Strætó bs. fyrir fyrstu sex mánuði ársins.
Þar kemur fram að rekstrarafkoma tímabilsins hafi verið í samræmi við áætlun og að rekstrartekjur hafi verið heldur hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þar hafði meðal annars áhrif að fargjaldatekjur voru hærri en upphaflega reiknað var með, eða um níu prósent hærri á fyrri helmingi þessa árs samanborið við árið 2018.
Á móti kom að rekstrarkostnaður Strætó var hærri en áætlun gerði ráð fyrir og vegur þar hærri olíukostnaður og hærri kostnaður við akstur verktaka þyngst samkvæmt uppgjörinu.
Þar kemur jafnframt fram að gengið hafi verið frá sölu á fasteign Strætó í Mjódd í júní síðastliðnum og var söluandvirðið hundrað milljónir króna. Þar af nam söluhagnaður félagsins um fimm milljónum króna.
Fargjaldatekjur dekkuðu um 28 prósent af heildarrekstrarkostnaði Strætó á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu en hlutfallið var 27,2 prósent á sama tíma í fyrra.
Félagið skilaði tæplega 110 milljón króna tapi á fyrri helmingi þessa árs en það er um sautján milljónum króna minna tap en á fyrstu sex mánuðum síðasta árs.

