Umfjöllun og viðtöl: Valur 0-1 KR | KR er Íslandsmeistari í knattspyrnu 2019

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
KR-ingar fagna sigurmarki Pálma Rafns.
KR-ingar fagna sigurmarki Pálma Rafns. vísir/bára
KR er Íslandsmeistari í knattspyrnu í 27.sinn eftir þægilegan sigur á erkifjendum sínum í Val í 20.umferð Pepsi-Max deildar karla í kvöld. 

Gangur leiksins

Strax á 4. mínútu fékk KR innkast ofarlega á vellinum, það var hins vegar sem innkastið ætti að vera Vals en KR fékk það og Kennie Chopart tók. Daninn gaf á Pablo Punyed sem setti hann í fyrsta á Kennie sem setti frábæran bolta fyrir markið þar sem Pálm Rafn kom askvaðandi og hamraði knettinum í netið af stuttu færi. 

Staðan orðin 1-0 og reyndust það lokatölurnar á Hlíðarenda í kvöld. 

Það var eins og mark Pálma Rafn hafi slegið allan vind úr heimamönnum en liðið var hvorki fugl né fiskur í kvöld. Undirritaður hefur sjaldan séð Vals liðið jafn slakt undanfarin ár en liðið var eftir á í öllum þáttum leiksins í kvöld. Þá voru heimamenn einkar pirraðir og hefðu hæglega getað fengið fleiri gul spjöld en þessi þrjú sem þeir fengu í kvöld. 

KR-ingar voru ekkert að spila neinn glimrandi sóknarbolta svo sem en það hefur ekki veirð þeirra aðalsmerki í sumar. Þeir voru hins vegar líklegri til að bæta við nær allan leikinn heldur en Valur var að jafna. Það vantaði hins vegar alltaf herslumuninn á sóknir þeirra nema þessa einu á 4. mínútu og það var það sem skildi liðin að í kvöld. 

Af hverju vann KR? 

Af því þeir eru besta liðið á Íslandi í dag. Það þarf lítið að ræða það frekar. Þeir virtust koma Val á óvart með því hversu hátt KR pressaði í dag og Valur átti engin svör.

Hverjir stóðu upp úr? 

Það er mjög erfitt að taka einhvern út úr KR-liðinu en Pálmi Rafn, Pablo Punyed og Skúli Jón Friðgeirsson voru frábærir á miðjunni hjá gestunum. Setti það tóninn fyrir allt liðið. Þá var Kristinn Jónsson í fantaformi að venju í vinstri bakverðinum. 

Hvað gekk illa?

Völsurum gekk illa að halda í knöttinn og skapa sér færi. Þeirra fyrsta, og eina skot á markið, kom á 87. mínútu leiksins. Þá gekk þeim illa að „klukka“ KR-ingana ef svo má að orði komast en gestirnir voru alltaf skrefi á undan.

Hvað gerist næst?

Íslandsmeistarar KR fá FH í heimsókn á Meistaravelli á sunnudaginn kemur á meðan Valur heimsækir Grindavík. Báðir leikir hefjast klukkan 14:00.

Beitir Ólafssonvísir/bára
Beitir Ólafsson: Ef þú ert Íslandsmeistari þá hlýtur að vera gera góða hluti þannig að þetta er langbesta tímabilið mitt

„Bara virkilega vel, á reyndar eftir að meðtaka þetta en fínt eins og er,“ sagði kampakátur Beitir Ólafsson að leik loknum. 

„Ég veit það ekki. Mér fannst stemmningin í klefanum eftir Reykjavíkurmótið vera þannig að við værum að fara klára þetta alla leið. Og þetta er búið að vera þannig í allt sumar, bara góð lína og það er geggjað,“ sagði Beitir um hvað hefði breyst hjá KR-liðinu milli ára. 

„Algjörlega. Ef þú ert Íslandsmeistari þá hlýtur að vera gera góða hluti þannig að þetta er langbesta tímabilið mitt,“ sagði markvörðurinn stóri og stæðilegi um hvort þetta væri ekki hans besta tímabil til þessa á ferlinum.

Varðandi leik kvöldsins þá var þetta bara meira af því sama fyrir KR. 

„Þeir fá í rauninni ekkert færi í leiknum og þetta er bara það sem við erum búnir að gera í síðustu þremur leikjum fyrir þennan leik. Höfum verið ótrúlega þéttir og ég hef haft lítið að gera, sem er bara ótrúlega kósí,“ sagði Beitir að lokum.

Óskar Örn fagnar í kvöldvísir/bára
Óskar Örn: Við erum meistarar og mér er skítsama 

„Ég hef bara aldrei verið betri sennilega,“ sagði Óskar Örn um líðan sína eftir sigur kvöldsins. 

Eftir 2-0 sigur KR á ÍA, þar sem Óskar Örn varð markahæsti KR-ingur í sögu efstu deildar, sagðist hann vera tilbúinn að ræða það afrek þegar titillinn var í höfn. Það gæti þó orðið bið á því. 

„Ég ætla bara að njóta þess að vera Íslandsmeistari næstu daga, vikur og mánuði og svo getum við rætt þetta einhverntímann.“

„Mér fannst það en við vorum samt líklegri. Fannst að við, eins og oft áður í sumar, hefðum átt að vera búnir að loka þessum leik fyrr en mér er svo sem um það núna, við erum meistarar og mér er skítsama um allt,“ sagði Óskar um það hvernig leikurinn þróaðist eftir að KR komst snemma yfir. 

„Já ég held ég verði að segja það. Þetta er það, ég held það,“ sagði Óskar að lokum aðspurður hvort þetta væri sætasti titillinn til þessa en sigurvíman var allsráðandi hjá þessum magnaða leikmanni.

vísir/bára
Pálmi Rafn mátti varla vera að því að tala við Vísi eftir leik

„Fáránlega vel, þetta er tilfinning sem er geggjuð,“ sagði markaskorari KR að leik loknum.

„Það var plús en að klára þetta var fyrir öllu. Við ætluðum að klára þetta í kvöld og við gerðum það,“ sagði Pálmi um hvernig það hefði verið að skora sigurmark leiksins en hann var svo sóttur af börnum sínum því hann átti að fara fagna inn í klefa svo fleiri spurningar þurfa bíða betri tíma.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira