Heiða Rún er 31 árs leikkona sem sló í gegn í þáttunum Poldark sem framleiddir eru af BBC. Daily Mail fjallar um færslu Heiðu en í Bretlandi gengur hún undir nafninu Heida Reed.
Heiða byrjaði að starfa sem fyrirsæta hér landi. 18 ára flutti hún til Mumbai og starfaði sem fyrirsæta í tvö ár. Því næst fór hún í leiklistarskóla í London og hefur verið í þeim bransa síðan.
„Þegar ég sá mynd af mér um daginn fékk ég ákveðin innblástur til að tjá mig,“ segir Heiða á Instagram.
„Áður en ég var leikkona starfaði ég sem fyrirsæta. Ég hef verið dæmd af útliti mínu síðan ég var 15 ára sem er meira en hálf ævi mín. Ég komst aldrei á tískupall á sínum tíma þar sem ég var alltaf sögð vera með of stórar mjaðmir.“
Hún segist vera ánægð að sjá að hlutirnir séu að breytast í dag og nefnir þá til sögunnar nýja fatalínu Rihönnu sem Vísir fjallaði um á dögunum.
„Ég er þakklát fyrir líkama minn og hvernig ég lít út í dag en ég er samt sem áður ennþá stundum í vandræðum með að koma fram í dag. Lærin á mér hristast of mikið og ég er með mun meiri appelsínuhúð en á þessari mynd. Ég næ ekkert alltaf að hreyfa mig reglulega og á stundum í mjög sérstöku sambandi við mat. Ég er að vinna í þessu öllu en þarf einnig að vinna í því að vera sátt við sjálfan mig.“