Lífið

Heimilislaus óperusöngkona fangaði athygli lögregluþjóns og myndbandið sló í gegn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Emily Zamourka er með magnaða rödd.
Emily Zamourka er með magnaða rödd.
Lögregluþjónn í Los Angeles náði myndbandi af Emily Zamourka er hún söng eins og engill á lestarstöð í borginni. Myndbandið hefur nú þegar vakið heimsathygli en Zamourka hefur verið heimilislaus í nokkur ár.

CNN greinir frá og nú þegar hefur borgarfulltrúi í Los Angeles hafist handa við að finna heimili fyrir konuna og mun hún einnig koma fram á viðburði í borginni á laugardaginn. Almenningur segir einnig í athugasemdakerfinu við fréttaflutning af þessari mögnuðu söngkonu að hún hafi sungið á lestastöðum um alla borg í langan tíma.

Á myndbandinu má heyra Zamourka syngja óperuna O mio babbino caro eftir Giacomo Puccini. Hún flutti til Bandaríkjanna frá Rússlandi þegar hún var 24 ára og lærði á sínum tíma á píanó og fiðlu. Hún byrjaði fyrst á því að þéna peninga á því að spila á fiðlu fyrir almenning í borginni en eftir að óprúttinn aðili eyðilagði fiðluna þurfti hún að hætta að spila. Einnig hefur hún verið að glíma við meiðsli í úlnlið.

„Þetta er í raun á ástæðan fyrir því að ég er heimilislaus í dag. Allt í einu gat ég ekki unnið fyrir mér og gat því ekki borgað mína reikninga og leigu,“ segir Zamourka í samtali við miðilinn KABC en hún er í dag 52 ára.

Ónefndur maður hefur nú stofnað hópfjármögnun á GoFundMe og hefur náðst að safna 35.000 dollurum til að reyna aðstoða Zamourka að koma undir sig fótunum.

Þá hefur borgarfulltrúinn Joe Buscaino sagt að hann sé nú þegar að reyna finna húsnæði fyrir konuna.

Hér að neðan má sjá þetta vinsæla myndband sem hefur breytt lífi Emily Zamourka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.