Körfubolti

Daníel: Þetta var ljótt brot

Benedikt Grétarsson skrifar
Daníel Guðni messar yfir sínum mönnum
Daníel Guðni messar yfir sínum mönnum vísir/daníel
Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur var auðvitað ósáttur við 97-93 tap sinna manna gegn Haukum í þriðju umferð Dominosdeildar karla. Það hjálpaði svo sannarlega ekki Grindvíkingum að Björgvin Hafþór Ríkharðsson missteig sig snemma leiks eftir viðskipti sín við Flennard Whitfield, leikmann Hauka og Daníel var ekki sáttur við framgang Bandaríkjamannsins í því atviki.

„Mér fannst hann (Flennard Whitfield,) bara stíga undir hann. Þetta var bara ljótt brot, bara rosa ljótt. Það er súrt að missa lykilleikmann út af svona snemma en Björgvin er lykilmaður hjá okkur varnarlega og á reyndar bara mörg vopn, bæði í vörn og sókn. Það var mjög slæmt að missa hann þarna.“

Aðspurður um leikinn sjálfan, segir Daníel varnarleik sinna manna ekki boðlegan.

„Ég er mjög ósáttur með varnarleikinn hjá okkur og það stingur mest í leikslok hversu slakur hann var. Við erum góðir í því að skora boltanum en varnarleikurinn okkar var bara vandræðalegur á löngum köflum í þessum leik.“

„Maður vinnur enga leiki með svona varnarleik. Maður þarf að halda liðum undir 80 stigum og skoðað svo sóknarleikinn sinn út frá því. Þetta var bara afleitt varnarlega og við þurfum að gera miklu betur og taka miklu meiri ábyrgð í okkar varnarleik. Það þýðir ekkert að bjóða upp á þetta til lengri tími,“ bætti Daníel við.

Jamal Olasaware og Valdas Vasylius léku báðir sinn fyrsta leik með Grindavík í kvöld. Olasaware skoraði 18 stig og Vasylius skoraði 11 stig og tók 10 fráköst. Hvernig leist þjálfaranum á frumraun þeirra?

„Ég er bara nokkuð spenntur fyrir framhaldinu með þá í liðinu mínu. Þeir líta bara vel út. Jamal var fínn í fyrri hálfleik en átti erfitt uppdráttar í þeim seinni og tók þá stundum rangar ákvarðanir í sókninni. Varnarlega er hann ekki alveg klár og það sést alveg að hann er ekki alveg 100%,“ sagði Daníel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×