Lífið

Pönkhljómsveit fyrir eldri borgara

Steingerður Sonja Þórisdóttir skrifar
Gígja vonast til að heyra frá sem flestum eldri borgurum sem hafa áhuga á að taka þátt í námskeiðinu.
Gígja vonast til að heyra frá sem flestum eldri borgurum sem hafa áhuga á að taka þátt í námskeiðinu.
„Þetta verkefni spratt upp úr gjörningi sem ég gerði fyrst fyrir tveimur árum. Hann heitir WikiHow to start a punk band og fólst í því að ég fylgdi leiðbeiningum af WikiHow. com um hvernig stofna ætti pönkhljómveit, en það hafði verið langþráður draumur hjá mér að vera í slíkri,“ segir Gígja Jónsdóttir.

Skapa hliðarsjálf

Gígja Jónsdóttir er menntaður dansari og myndlistarkona. Hún blandar báðum þekkingarheimum saman í gjörningum sínum. Hún segir hugmyndina að gjörningnum hafa sprottið upp úr vangaveltum um hve Internetið sé orðið samofið lífi okkar í dag og fólk leiti þangað til að þjálfa upp hæfni eða læra nýja hluti. „Þetta var smá gagnrýni en líka tilraun til að upphefja þessa menningu, það að fólk haldi að það geti lært að gera nánast hvað sem er á Internetinu. Í gjörningnum voru áhorfendur meðlimir hljómsveitarinnar. Ég skapaði aðferðir í kringum öll skrefin og í samvinnu við gesti sýningarinnar varð hljómsveitin til.“

Nú hafa orðið til nokkrar sveitir út frá gjörningnum en Gígja hefur líka verið með námskeið byggt á hugmyndafræði hans. „Ég vildi breyta þessu í námskeið. Fyrsta námskeiðið var með ungu fólki. Þá voru engir áhorfendur en ég fór ítarlegar í hvert skref. Námskeiðið er 5-8 dagar í staðinn fyrir tvær klukkustundir. Þannig verður vinnan dýpri. Á námskeiðunum sköpum við líka hliðarsjálf þótt allir séu í raun þeir sjálfir í ferlinu, það er meira til að auka á listræna frelsið. Þá gefur fólk sér meira rými til að prufa hluti sem það hefur ekki leyft sér áður.“



Dans ekki bara fyrir ungt fólk

Gjörningurinn var sýndir á einleikjahátíðinni Act Alone á Suðureyri í ár og fékk góðar viðtökur. Fyrir mánuði stóð Gígja svo fyrir námskeiði með Forward Youth Dance Company, sem er ungdansflokkur. „Þátttakendurnir í því námskeiði stofnuðu hljómsveitina The Boob Sweat Gang, sem er enn starfandi og mun koma fram í Iðnó í næstu viku. Þannig að námskeiðið varð til þess að úr varð alvöru pönkhljómsveit.“

Næst á dagskrá hjá Gígju er að halda sams konar námskeið fyrir eldri borgara og lýsir því Gígja eftir fólki yfir 65 ára sem langar að stofna pönkhljómsveit. „Þetta námskeið verður haldið í samvinnu við Reykjavík Dance Festival. Hátíðin í ár er samfélagsmiðuð og er verkunum ætlað að skoða jaðar- og minnihlutahópa í samfélaginu, ásamt því að reyna að gera dansinn sem aðgengilegastan fyrir alla. Það er svo fastur stimpill á dansinum að hann sé bara fyrir ungt fólk, eins og maður sé bara brunninn út sem dansari þegar maður er 35 ára. Þannig að mig langar að leika með þessi ímynduðu aldurstakmörk.“



Pönkið er drifkraftur

Hún segir pönkið hafa líka meira verið tengt við yngra fólk í gegnum árin. „Mér finnst ótrúlega spennandi og áhugavert að sjá hvernig þroskað pönk kemur út. Svo held ég að það sé líka hollt og gaman fyrir eldra fólk að fá einhvers konar pláss til að skapa á þennan hátt. Margir gefa sjálfum sér minna frelsi í tilraunastarfsemi og flipp þegar þeir eldast. Mig langar að eiga samtal við þessa kynslóð og draga hana inn í dansinn. Ég nota pönkið sem drifkraft. Þetta er form sem við erum að leika okkur með sem er frelsandi og gefur fólki rými til að finna sína rödd.“

Því óskar Gígja eftir að heyra frá eldri og heldri borgurum sem hafa áhuga á pönki, dansi eða bara langar að prófa eitthvað nýtt. Hægt er að senda inn spurningar og umsókn á tölvupóstfangið gigjajons@gmail.com






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.