Frá Möðruvöllum í Hörgárdal.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Fyrsti ráðherra Íslands, Hannes Hafstein, rithöfundurinn Jón Sveinsson, Nonni, skáldið Davíð Stefánsson frá Fagraskógi; þetta eru allt nöfn sem tengjast Möðruvöllum í Hörgárdal, en merk saga þessa höfuðbóls er meðal efnis í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 á mánudagskvöld.
Möðruvellir voru helsta valdamiðstöð landsins um aldir og í reynd höfuðstaður Norðurlands þegar amtmenn Danakonungs sátu staðinn, þeirra á meðal Bjarni Thorarensen skáld. Þar var munkaklaustur fyrir siðaskipti og síðar Möðruvallaskóli, forveri Menntaskólans á Akureyri.
Horft heim til Myrkár í Hörgárdal.Stöð 2/Arnar Halldórsson.Myrká er önnur fræg jörð í Hörgárdal en með dimmari sögu; um djáknann á Myrká, sem ásótti Guðrúnu forðum.
Djákninn drukknaði í Hörgá á leið til fundar við ástkonu sína en gekk aftur og gat því ekki sagt kristilegt nafn hennar. Því mælti hann „Garún, Garún," þegar þau riðu saman út í tunglskininu og hún sá í hvíta hauskúpuna.
Á Þelamörk eru grunnskóli og íþróttamiðstöð Hörgarsveitar, sem og skrifstofa sveitarfélagsins.Stöð 2/Arnar Halldórsson.Hörgdælir nútímans verða þó í forgrunni þáttarins en þar hittum við fjárbændur, kúabændur og hrossabændur en einnig fulltrúa vaxandi hóps sem starfar á Akureyri en velur að búa í sveitinni.
Hér má sjá brot úr þættinum, sem er á dagskrá Stöðvar 2 klukkan 19.10 á mánudagskvöld:
Dæturnar á bænum Syðri-Bægisá í Öxnadal stefna að því að taka við búskap af foreldrum sínum. "Pabbi verður allavega ekkert yngri,“ er svarið þegar spurt hvort er hvort farið sé að huga að kynslóðaskiptum.
Hverjum gæti dottið í hug að byggja upp ferðaþjónustu á grunni draugasögu? Jú, bændunum á Myrká þar sem djákninn ásótti Guðrúnu forðum og kallaði Garúnu.