Matur

Jólaterta sem lætur jólin koma

Elín Albertsdóttir skrifar
Sylvía er að byrja með nýja þætti á Stöð 2 Maraþon, þar mun hún baka fyrir landsmenn.
Sylvía er að byrja með nýja þætti á Stöð 2 Maraþon, þar mun hún baka fyrir landsmenn. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Jólin eru í miklu uppáhaldi hjá Sylvíu Haukdal Brynjarsdóttur sem er einstaklega hæfileikarík þegar kemur að bakstri. Hún bakaði jólatertu fyrir lesendur sem er ekki bara falleg heldur einstaklega góð.

Sylvia starfar við áhugamálið hjá Sætum syndum og er með eigin uppskriftarvef undir nafninu sylviahaukdal.is sem vakið hefur mikla athygli. Þá hefur hún einnig stóran hóp fylgjenda á Instagram. Sylvía er yngri systir Birgittu Haukdal, söngkonu og barnabókahöfundar.

Sylvía Haukdal er menntaður pastry chef frá matreiðsluskólanum Le Cordon Bleu í London. Það verður stór stund hjá henni í desember þegar hún byrjar með nýja þætti á Stöð 2 Maraþon sem nefnast Bakað með Sylvíu Haukdal.

Sylvía gefur hér uppskriftir að glæsilegri jólatertu og Bismark jólabollakökum. Hún segist hlakka mikið til að kveikja á kertum og eiga notalegar stundir með fjölskyldu sinni í eldhúsinu. Eiginmaður hennar er Atli Björgvinsson en þau eiga tvær dætur, Önnu Hrafnhildi, 4 ára og Marín Helgu sem er ársgömul.

Jólakaka Sylvíu Haukdal

Súkkulaðibotnar

600 g sykur

315 g Kornax hveiti

120 g kakó 

¼ tsk. lyftiduft 

¼ tsk. matarsódi 

½ tsk. salt

3 egg

165 ml olía (grænmetis)

330 ml mjólk

330 ml heitt vatn

3 tsk vanilludropar

Hún er heldur betur glæsileg jólatertan hennar Sylvíu. Handbragðið er hrein snilld og bragðið sömuleiðis mjög gott.

Við byrjum á því að hita ofninn í 175°C (blástur). Næst setjum við öll þurrefnin saman í hrærivélarskál og hrærum saman. Þegar við höfum blandað þurrefnunum vel saman bætum við eggjum, mjólk, olíu, heitu vatni og vanilludropum saman við og hrærum þar til allt hefur blandast vel.

Næst smyrjum við þrjú 20 cm form með olíu, setjum bökunarpappír í botninn og smyrjum aftur. Svo hellum við deginu jafnt í öll form og bökum í 20-25 mínútur eða þar til pinni kemur hreinn upp úr kökunum (mér þykir best að vigta deigið og skipta því jafnt niður í formin til þess að fá alla botna jafn stóra).

Um leið og botnarnir koma úr ofninum losum við hliðarnar á formunum og hvolfum botnunum á bökunarpappír eða kæligrind.



Hvítsúkkulaðikrem (á milli botna)

150 g smjör (við stofuhita)

150 g flórsykur

200 g hvítt súkkulaði (brætt)

100 g rjómaostur

100 g frosin hindber

Við byrjum á því að þeyta smjörið þar til það verður ljóst og létt. Síðan er flórsykri bætt saman við og þeytt þar til kremið verður hvítt og létt. Að lokum er rjómaosti hrært saman við og hvítu súkkulaði. Þegar kakan er sett saman er hindberjum stráð yfir kremið.



Smjörkrem (utan um köku)

500 g smjör (við stofuhita)

500 g flórsykur

2 tsk. vanilludropar

Við byrjum á því að þeyta smjörið vel og lengi þar til það verður létt og ljóst. Næst bætum við flórsykri og vanilludropum saman við og höldum áfram að þeyta. Að lokum bætum við rjómanum saman við og þeytum í smá stund í viðbót.

Fallegar Bismark jólabollakökur.

Bismark jólabollakökur

Súkkulaðibollakökur

125 g dökkt súkkulaði

170 ml mjólk

290 g púðursykur

105 g smjör (við stofuhita)

2 egg

180 g Kornax hveiti

½ tsk. salt

½ tsk. matarsódi

½ tsk. lyftiduft

10 g kakó



Við byrjum á því að hita ofninn í 175°C (blástur). Næst setjum við súkkulaði, mjólk og helminginn af púðursykrinum í lítinn pott og hitum upp að suðu á vægum hita. Við þeytum saman smjöri og hinum helmingnum af sykrinum saman og bætum síðan eggjunum varlega saman við. Næst hrærum við þurrefnunum varlega saman við. Að lokum fer heita súkkulaðiblandan í mjórri bunu saman við. Við bökum bollakökurnar við 175°C í um það bil 18 mínútur.



Bismark súkkulaði ganache

150 g Bismark rjómasúkkulaði

90 ml rjómi 

Við byrjum á því að saxa súkkulaðið í smáa bita og setjum í skál. Næst hitum við rjómann upp að suðu og hellum yfir súkkulaðið. Hrærum síðan blönduna vel saman og leyfum henni að kólna og þykkna áður en við setjum hana í bollakökurnar.

Smjörkrem

300 g smjör (við stofuhita)

300 g flórsykur

2 tsk. vanilludropar

Við byrjum á því að þeyta smjörið vel og lengi þar til það verður létt og ljóst. Næst bætum við flórsykri og vanilludropum saman við og höldum áfram að þeyta. Að lokum bætum við rjómanum saman við og þeytum í smá stund í viðbót.

Samsetning

Við byrjum á því að gera göt í miðjuna á öllum bollakökunum. Næst sprautum við Bismark súkkulaði-ganache í gatið Svo fer krem ofan á bollakökurnar og þær skreyttar að vild.








×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.