Hin 17 ára Margrét Lillý Einarsdóttir ólst upp á Seltjarnarnesi, ein hjá móður sinni, og segist hafa búið við verulega vanrækslu og ofbeldi alla ævi. Samkvæmt gögnum sem Kompás hefur undir höndum hefur móðirin langa sögu um geð- og áfengisvanda og er ljóst að barnaverndaryfirvöld hafi verið meðvituð um slæmar aðstæður stúlkunnar, að minnsta kosti nokkrum sinnum á uppvaxtarárum Margrétar Lillýjar.Klippa: Kompás - Lokuð á heimilinu með geðveikri móður Margrét Lillý segir barnaverndarnefnd Seltjarnarness og í raun allt samfélagið á Nesinu hafa brugðist sér. Það hafi verið litið undan og ekki brugðist við með réttum hætti. Hún ákvað að segja sögu sína í samráði við sálfræðing sinn þar sem hún getur ekki hugsað sér að önnur börn upplifi það sem hún upplifði. Hún kennir veikri móður sinni ekki um það sem hún hefur þurft að þola, heldur kerfinu.Lokuð inni þegar hún var fimm ára Ljóst er af gögnunum frá barnaverndarnefnd að móðir Margrétar Lillýjar hafi átt við alvarleg veikindi að stríða; Geðhvarfa- og áfengissýki og hefur hún farið í geðrof og haft ranghugmyndir, alveg frá því Margrét Lillý fæddist. Margrét Lillý man fyrst eftir því að hafa verið lokuð inni í marga daga með móður sinni þegar hún var fimm ára.Vísir/VilhelmMargrét Lillý segist fyrst muna eftir veikindum móður sinnar þegar hún var fimm ára þegar hún lokaði þær mæðgur inni á heimilinu. „Ég man eftir því að hún sat og reykti, bakandi köku og bullandi að einhver væri að horfa á okkur. Hún hafði lokað okkur inni í nokkra daga og svo heyri ég lögregluna banka á útidyrahurðina. Það næsta sem ég man er að lögreglan og afi minn eru að brjóta niður hurðina, taka mömmu mína, handtaka hana og fara með á geðspítalann,“ segir Margrét Lillý. Eins og sést af gögnum málsins var móðir hennar svipt sjálfræði. Í veikindunum hafði hún lokað sig og dótturina af í tvær til þrjár vikur og ekki farið með hana í leikskólann. Barnaverndanefnd var kölluð til og var Margrét Lilly vistuð tímabundið hjá móðurforeldrum. Ekki var talin þörf á eftirliti þar sem móðurforeldrarnir hugsuðu vel um hana. Margrét Lillý var fljótlega komin aftur til móður sinnar. Pabbi hennar, Einar Björn, var ekki látinn vita.Vanrækslan viðvarandi Einar Björn og móðirin voru aldrei saman og hefur móðirin alltaf verið með fullt forræði. Í gögnum málsins segir að móðirin hafi haft miklar ranghugmyndir um Einar Björn og umgengni við hann ætíð verið slitrótt. Það var ekki fyrr en móðirin var vistuð á geðdeild síðasta haust að Margrét Lillý var vistuð hjá föður sínum og þá fyrst opnaði Margrét Lillý sig um aðstæður sínar. Í gögnum málsins sést að barnaverndarnefnd Seltjarnarness hafði borist þó nokkrar ábendingar um aðstæður hennar en vanrækslan og ofbeldið var viðvarandi.Margrét Lillý býr nú hjá föður sínum en fyrir það var umgengni við hann ætíð slitrótt. Móðir Margrétar Lillýjar er sögð hafa haft miklar ranghugmyndir um barnsföður sinn.Vísir/VilhelmMargrét Lillý lýsir því að móðir hennar hafi lokað þær af þegar hún gat ekki fúnkerað. „Þegar hún var alls ekki í standi fyrir samfélagið. Stundum tókum við líka bara daga þar sem hún sagði að ég væri slöpp og spurði hvort ég vildi ekki bara nota daginn með henni. Ég sagði aldrei nei því ég hafði svo miklar áhyggjur af henni,“ segir Margrét Lillý. Áhyggjur Margrétar Lillýjar af móður sinni voru miklar frá unga aldri og verndarþörfin mikil. Í gögnunum kemur fram að hún hafi ekki viljað fara frá móður sinni þegar loka átti hana inn á geðdeild, hún hafi bæði verið reið og í uppnámi í hvert skipti. Hún segir að móðir hennar hafi drukkið mikið og dáið brennivínsdauða fyrir framan hana. „Ég var alveg skíthrædd fyrstu skiptin en svo fór ég að venjast þessu.“ Margrét segir að ástandið hafi alls ekki alltaf verið svo slæmt. Stundum hafi móður hennar tekist að hætta að drekka um tíma og þá hafi allt verið betra. Þær mæðgur hafi alltaf verið mjög nánar, móðirin verið ástrík og góð oft á tíðum en svo komu erfiðari tímabil.Barnið illa til reika, óhreint og tætt Þegar Margrét Lillý var níu ára var lögregla kölluð til á heimili mæðgnanna vegna heimilisofbeldis. Barnaverndarstofa var látin vita og í skýrslu segir að móðirin, sem lengi hafi átt við geðræna erfiðleika að etja, hafi verið búin að loka sig inni í nokkra daga með barnið. Margrét Lillý hafi sagt að mamma hennar hafi hvorki eldað né borðað, bara reykt. Sjálf hafi hún borðað snakk þegar maturinn kláraðist. Móðirin hafi talað skringilega og sagt að það væri fólk að koma út úr málverkunum. Í lögregluskýrslu er því lýst að það hafi verið mikið drasl og óþrifnaður á heimilinu. Sjá mátti að búið var að henda niður munum. Barnið hafi verið illa til reika, óhreint og tætt.Kompás hefur gögn frá barnavernd og lögreglu undir höndum. Þar kemur vanrækslan og ofbeldið skýrt fram.vísir/hafsteinn„Ég man eftir því að ég fór ekkert í skólann, ég fór ekkert út úr húsi, ég horfði mest á myndir. Ég hugsaði mest um að passa upp á mömmu mína því hún var auðvitað ekki í góðu standi. Þetta var alveg rosalegt,“ segir Margrét Lillý um aðstæðurnar á þessu tímabili.Sagt að biðja um hjálp ef hún hætti að skilja mömmu Málið var tilkynnt til barnaverndarnefndar Seltjarnarness. Á fjögurra mánaða tímabili hitti félagsráðgjafi Margréti Lillý sex sinnum. Málinu var svo lokað með þeim orðum að mamman þurfi að taka lyfin sín en ekki var talin ástæða til frekari afskipta. Barninu var sagt að biðja um hjálp ef mamma hætti að hugsa um hana og ef hún hætti að skilja hana. Margrét Lillý var níu ára. Sævar Þór Jónsson, lögmaður Margrétar Lillýjar, segir að óskiljanlegt sé að ekki hafi verið gripið meira inn í á þessum tímapunkti. „Hversu oft þurfa að koma upp tilvik eins og þessi þar sem barn er beitt ofbeldi þar til kerfið bregst við. Það er alveg augljóst af gögnum málsins að það er eitthvað mikið að þeim reglum sem barnaverndanefnd Seltjarnanesbæjar á að fara eftir,“ segir Sævar Þór.Sævar Þór Jónsson er lögmaður Margrétar Lillýjar en hún er í málaferli við Seltjarnarnesbæ vegna viðbragðsleysis í hennar málum.Vísir/EgillAftur var Einar Björn, faðirinn, ekki látinn vita og í gögnunum segir að það hafi verið vegna þess að barnið segðist ekki tala við hann lengur. Ekki hafi unnist tími til að kanna það frekar og stúlkan vistuð hjá móðurforeldrum. „Barnavernd hefur aldrei látið mig vita af neinu sem hefur komið upp á. Aldrei hringt í mig. Aldrei tilkynnt mér neitt,“ segir Einar Björn sem er reiður út í Barnaverndarnefnd Seltjarnarnesbæjar.Hefði átt að stappa niður fótum Einar Björn útskýrir að hann hafi í gegnum tíðina reynt að fá sameiginlegt forræði en verandi sjómaður, oft fjarverandi og í óreglu hafi það ekki gengið Hann hafi þó alltaf sótt það stíft að fá að umgangast dóttur sína og ekki síst á seinni árum eftir að hann hætti að drekka en að móðirin hafi eitrað samband þeirra með lygasögum um ofbeldi og áhugaleysi hans. Þau skipti sem hann hafi verið með Margréti Lillý hafi móðirin hringt stanslaust og truflað. Margrét Lillý segist lítið hafa viljað umgangast föður sinn og alls ekki viljað segja honum frá því sem átti sér stað á heimilinu. „Mamma mín og amma og fjöldskyldan reyndu að koma honum eins langt frá mér og þau gátu.“ Einar Björn segir að þrátt fyrir að hafa haft áhyggjur af dóttur sinni í gegn um tíðina hafi hann aldrei órað fyrir því að ástandið væri svona slæmt. Hann finnur þó til ábyrgðar í dag. „Ég kannski hefði átt að stappa niður fótunum eitthvað meira en mér finnst kerfið bara alveg ömurlegt og ég átti aldrei séns,“ segir Einar. Margrét Lillý segir að skiptin hafi verið fleiri sem mamma hennar veiktist illa og hún lokaði þær mæðgur af. „Hún sá ekkert um mig. Hún var bara í þessu veika ástandi þar sem hún gat ekki séð um mig.“ Sumum atburðum mun Margrét Lillý aldrei gleyma og ber þá hæst þegar móðir hennar kramdi páfagaukinn hennar til dauða af því að hún hélt að hann væri myndavél fyrir bankamann.Vísir/Vilhelm„Kramdi páfagaukinn minn til dauða“ Frá því Margrét Lillý flutti til pabba síns fyrir rúmu ári hefur hún unnið úr reynslu sinni með sálfræðingi. Minningarnar eru greiptar í hug hennar. Hún rifjar upp atvik sem kom upp aðra vikuna sem þær höfðu verið lokaðar inni þegar hún var níu ára. „Þetta er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Ég átti tvo páfagauka. Hún sagði að einn þeirra væri myndavél fyrir bankamann sem væri að reyna stela öllum peningunum frá henni. Hún byrjaði á því að taka einn páfagaukinn minn og henti honum út í ruslið. Þetta var auðvitað dýrið mitt sem ég elskaði mjög mikið og ég grátbað hana um að ná í hann aftur sem hún svo gerði. Svo setti hún hann á gluggakistuna við hliðina á stólnum sínum og beint fyrir framan mig nær hún í sígarettubox og kremur páfagaukinn minn til dauða. Ég algjörlega brotnaði niður,“ segir Margrét Lillý.Í eðli barna að hjálpa mömmu Eins og fram kemur í gögnunum var móðirin mjög háð dóttur sinni, vildi helst hafa hana hjá sér öllum stundum. Eftir skóla átti hún að koma beint heim. Margrét Lillý útskýrir að hún hafi upplifað áreiti frá móður sinni hvert sem hún fór. Þegar hún fór út með vinkonum sínum hringdi mamma hennar stanslaust. Sigríður Gísladóttir, er í stjórn Geðhjálpar, og ólst sjálf upp hjá veikri móður. Hún segir reynslu Margrétar Lillýjar því miður ekki einsdæmi. „Það kemur mér ekki á óvart. Ég held það séu miklu fleiri dæmi sem við vitum ekki um. Þetta er svo mikill feluleikur, bæði að vera með geðsjúkdóm og að vera barn sem á foreldri með geðsjúkdóm,“ segir Sigríður og bætir við að það sé í eðli barna að hjálpa mömmu og pabba ef þau eru veik. „Þau vilja ekki fara af heimilinu, þau vilja passa mömmu og pabba,“ segir hún. Margrét segist einmitt alltaf hafa vilja passa upp á mömmu sína. Ekki viljað að fólk vissi hvað móðir hennar væri veik. Hún hafi þó oft á tíðum verið hrædd um hvað gæti gerst næst, enda sjúkdómur móður hennar óútreiknanlegur.„Ofbeldið var inni í þessu“ „Ég hafði nú þegar séð hana drepa páfagaukinn minn og hún hafði svelt mig stundum og alls ekki farið vel með mig eða húsið. Ofbeldið var inni í þessu,“ segir Margrét Lillý. Móðir hennar hafi orðið mjög ofbeldisfull þegar hún drakk. Hún hafi kýlt hana og sparkað í hana. Einar Björn, faðir hennar, segist aldrei hafa vitað af heimilisofbeldinu. „Ég vissi það ekki fyrr en dóttir mín kom og fór að treysta mér fyrir því að segja mér frá því.“Segir alla hafa verið meðvitaða um vanræksluna Margrét Lillý ítrekar að vissulega hafi komið mörg góð tímabil inn á milli. Hún sé ekki reið út í mömmu sína en sé þó ekki í miklu sambandi við hana í dag. „Mamma mín er auðvitað veik. Ég elska mömmu mína og mun alltaf reyna að styðja hana og hafa hana í lífinu mínu en hún á bara svo erfitt og er svo veik.“Sigríður Gísladóttir hjá Geðhjálp segir fjölda barna vera að upplifa „helvíti heima.“ Mikilvægt sé að fylgst sé grannt með börnum sem eiga veika foreldra.Þegar Margrét Lillý komst á unglingsárin fóru veikindi móður hennar að leggjast þyngra á hana. Hún hafði miklar áhyggjur af heilsu móður sinnar og kvíðinn stigmagnaðist. Móðir hennar tilkynnti hana oft veika í skólann og Margrét Lillý átti erfitt með svefn. „Stundum fór ég að sofa þrjú eða fjögur og þá mætti ég seint í skólann. Þá fóru krakkar að taka eftir því og spyrja mig um það. Fólk tók auðvitað eftir þessu en vildi ekki gera neitt,“ segir Margrét Lillý sem er sannfærð um að skólastarfsmenn, nágrannar og fjölskyldumeðlimir hafi verið vel meðvitaðir um vanræksluna. Annað standist ekki. „Þau vissi auðvitað af þessu. Allir þarna þekkja fjölskylduna mína og mamma mín hringdi oft í skólann og var spyrjandi um þetta og hitt.“Börn sem eru að díla við helvíti heima Margrét Lillý skilur ekki hvers vegna skólinn greip ekki inn í. Hún hafi upplifað sig eina og hjálparlausa. Sjálf þorði hún ekki að biðja um hjálp því hún skammaðist sín og vildi vernda móður sína. Sigríður hjá Geðhjálp bendir á að það þurfi faglært fólk í grunnskólana sem geti fylgst með börnunum. „Það þarf náttúruleg að tala við grunnskólakennarana. Ef börnin eru í skólanum. Það þarf að fylgjast með barninu, þetta eru oft börn sem mæta illa í skóla og eru „óþekk“, börn sem eru að díla við helvíti heima,“ segir Sigríður. Margrét Lillý nefnir dæmi um að ritarinn í skólanum hennar hafi verið nágranni hennar. „Hún bjó við hliðina á okkur. Mamma mín fór oft með mig um nágrennið og var að biðja fólk um að passa mig þegar hún ætlaði út á djammið,“ segir Margrét Lillý.Sagði einu sinni frá Margrét Lillý segist einu sinn hafa leitað hjálpar þegar hún var tólf ára. Þá hafi móðir hennar farið að setja sig í samband við vini hennar og kunningja á samfélagsmiðlum. „Eitt af því var mjög óviðeigandi og fór of langt yfir strikið og ég hafði samband við námsráðgjafann í Valhúsaskóla og sagði henni að mamma mín væri alkóhólisti, hefði ranghugmyndir og hefði gert þennan óviðeigandi hlut,“ segir Margrét Lillý og bætir við að þegar hún hafi komið heim úr skólanum hafi námsráðgjafinn verið búin að hringja í móður hennar sem gerði illt verra. „Þetta var algjörlega hræðilegt tímabil fyrir mig,“ segir Margrét Lillý. Námsráðgjafinn talaði ekki aftur við Margréti Lillý.Óskar þess að fólki hefði ekki verið „drullusama“ Sævar Þór, lögmaður Margrétar, segir að ef farið hefði verið eftir ábendingum hefði ítrekað verið tilefni til að grípa inn í málið af fagaðilum. „Það er þyngra en tárum taki að fara í gegn um gögnin það því það var augljóst af yfirferðinni á þessum gögnum að það hefur átt sér stað einhver verulegur brestur í kerfinu.“Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, segir tilkynningarskylduna mikilvæga og rifjar upp hræðilegt mál sem endaði illa en barnavernd barst ekki ein einasta tilkynning um málið þrátt fyrir að margir vissu af erfiðum aðstæðum fjölskyldunnar.vísir/hafsteinnAð sögn skólastjóra grunnskóla Seltjarnarness tilkynnti skólinn atvik til barnaverndarnefndar á einhverjum tímapunkti. Skólastjórinn getur ekki tjáð sig um málið að öðru leyti. Einnig má sjá í gögnum málsins að nokkrar tilkynningar bárust frá Einari. „Barnavernd á Seltjarnanesi eru engan veginn hæfir til að sinna börnum. Þeir hafa ekkert verið þarna fyrir dóttur mína,“ segir Einar Björn, faðir Margrétar Lillýjar. „Þeir aðilar sem báru ábyrgð á því að gæta hagsmuna barnsins, það er að segja barnaverndarnefndin, vissu af hlutum svo voru langt frá því að vera í lagi en gerðu ekki neitt,“ segir Sævar Þór. Margrét Lillý segir að lögregla hafi tilkynnt barnavernd um heimilisofbeldi í einhver skipti. Þá hljóti nágrannar hennar að hafa tekið eftir þessu. „Þeir heyrðu mig öskra um allt nágrennið frá húsinu mínu. Mér finnst ótrúlegt að engin hafi geta haft samband við einhvern. Bara ósk mín hefði verið að einhverjum hefði ekki verið drullu sama.“ Telur pólitísk- eða vinatengsl hafa haft áhrif Þegar móðir Margrétar Lillýjar var vistuð á geðdeild dvaldi hún hjá afa sínum og ömmu sem hún segir að hafi verið mjög meðvirk með móður hennar. Hún segist hafa notið tímans með þeim. „Það var auðvitað betra en að vera heima með mömmu minni.“ Margrét Lillý er þó sannfærð um að pólitísk- og vinatengls móðurfjölskyldunnar við starfsmenn hjá bænum hafi haft áhrif á að hún hafi aldrei verið tekin af móður sinni. Amma hennar hafi lengi verið í pólitík, til að mynda formaður í einni af nefndum bæjarins á síðasta kjörtímabili. „Þetta var allt vel falið út af fjölskyldunni mini. Þetta er of fín fjölskylda til að einhver geti verið veikur. Seltjarnanes er auðvitað mjög lítið samfélag. Allir þekkja alla, allir vita hver amma, afi og mamma mín eru,“ segir Margrét Lillý.Úrræðaleysi og fjársvelti í barnaverndarmálum Það var ekki fyrr en síðasta haust þegar lögregla var kölluð til á heimili mæðgnanna vegna heimilisofbeldis, að barnaverndarnefnd þótti nauðsynlegt að vista stúlkuna hjá föður sínum, en þá var tekinn til starfa nýr starfsmaður hjá nefndinni. Einar Björn, faðir Margrétar Lillýjar segir starfsmanninn hafa verið undrandi á því að ekki væri löngu búið að vista Margréti Lillý utan heimilis. „Hún segir bara við mig beint út afhverju er stelpan ekki löngu komin til þín eins og ástandið er á þessu heimili. Ég er mjög þakklátur fyrir að það hafi komið ný kona þarna inn sem að skipti sér eitthvað aðeins að þessu,“ segir Einar Björn. Á þessum tímapunkti fer Barnaverndarnefndin í fyrsta sinn fram á lögreglurannsókn vegna heimilisofbeldis. Í beiðni um lögreglurannsókn frá nefndinni segir að stúlkan hafi búið við mikla vanrækslu af hálfu móður alla ævi. Fréttastofa hefur rætt við fyrrverandi starfsmenn barnaverndarnefndar Seltjarnanesbæjar sem ekki vilja koma fram undir nafni. Þeir segja að þeim hafi blöskrað aðgerðaleysið í máli Margrétar Lillýjar en að almennt hafi ríkt úrræðaleysi og fjársvelti í barnaverndarmálum og mörg dæmi um að tilkynningum hafi ekki verið sinnt sem skyldi.Kerfið brást líka móðurinni Margréti Lillý líður eins og allir hafi brugðist sér í æsku. „Fjölskyldan mín, barnavernd og skólinn,“ segir Margrét Lillý og bætir við að í raun hafi allt samfélagið á Nesinu brugðist henni. Sævar Þór, lögmaður Margrétar Lillýjar, tekur undir með henni. Ljóst sé að kerfið hafi einnig brugðist móðurinni. „Það er alveg augljóst að kerfið hefur ekki bara brugðist stelpunni heldur líka móðurinni. Hún er augljóslega mjög veik og hefði þurft að fá stuðning og aðstoð,“ segir hann. Feðginin hafa farið fram á að bærinn viðurkenni bótaábyrgð í málinu enda hafi nefndin átt að vera meðvituð um vanræksluna. Þá hafa þau kvartað til Barnaverndarstofu sem hefur eftirlit með störfum barnaverndarnefnda og Bjarni Torfi Álfþórsson, formaður barnaverndarnefndar Seltjarnarnessbæjar, staðfestir að málið sé í stjórnsýsluferli. Það sé alltaf sé vont þegar fólk sé sakað um að hafa ekki unnið vinnuna sína. Verið sé að skoða málið ásamt fleiri málum sem hafa verið á sviði barnaverndarmála, fimmtán ár aftur í tímann. „Það er utanaðkomandi aðili sem gerir þá úttekt fyrir okkur,“ segir Bjarni Torfi. „þegar litið er aftur á bak þá er stundum hægt að gera meira og stundum minna. Það er þannig þegar borað er í gömul mál,“ segir Bjarni Torfi.Tilkynningarskyldan gríðarlega mikilvæg Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, getur ekki tjáð sig um rannsókn málsins en segir að almennt í barnaverndarmálum sé tilkynningarskylda almennings og fagfólks gríðarlega mikilvæg. „Maður hefur stundum á tilfinningunni með minni sveitarfélög, þar sem allir vita allt um alla, að þá haldi fólk kannski að barnaverndarnefnd hljóti að vita um þetta. Það hljóti að vera blússandi stuðningur og tilkynna þess vegna ekki,“ segir Heiða Björg. Þetta sjáist einnig í stærri sveitarfélögum. Heiða Björg rifjar upp skelfilegt mál sem kom upp fyrir fimmtán árum þegar geðveik móðir myrti barn sitt. Alvarlegar áhyggjur voru af fjölskyldunni árum saman en aldrei bárust tilkynningar. „Málið endaði með vofveiflegum hætti. Tilkynningarskyldan er algjörlega grundvallarforsenda þess að hægt sé að bregðast við og hjálpa börnum.“ Margrét Lillý er ekki reið út í móður sína, hún segir hana veika og þurfa aðstoð. Kerfið hafi brugðist þeim báðum.Vísir/VilhelmRengir frásögn Margrétar Lillý Haft var samband við lögmann móður Margrétar Lillýjar viku fyrir umfjöllunina þar sem henni var gefið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Í bréfi sem lögmaður sendi til lögfræðings fréttastofu er frásögn stúlkunnar rengd, gefið í skyn að umfjöllunin sé eingöngu liður í forsjárdeilu föður hennar og til að styrkja skaðabótamál stúlkunnar gegn Seltjarnarnesbæ. Einnig að umfjöllun sem þessi eigi ekki heima í fjölmiðlum. Hér er hægt að lesa bréfið í heild sinni.Horfir bjartsýn til framtíðar Margréti Lillý líður vel hjá pabba sínum í dag og horfir jákvæð til framtíðar. Hún er í námi og finnst hún loksins eiga eðlilegt líf. Hana langar að reyna loka á fortíðina og reynir stundum að láta eins og hún hafi ekki gerst. Hún segist glíma við mikinn kvíða en er að vinna í sínum málum. „Ég reyni að halda áfram með lífið, þetta yndisleg líf mitt,“ segir Margrét Lillý og brosir. Hún segist vera mjög þakklát fyrir að hafa kynnst mömmu sinni sem persónu. „Ekki þessum sjúkdóm heldur bara þessari konur. Hún er virkilega æðisleg, hún virkilega er það,“ segir Margrét Lillý sem óskar þess að móðir sín hefði fengið meiri hjálp. „Kerfið brást bæði mér og mömmu minni.“ Barnavernd Kompás Ofbeldi gegn börnum Seltjarnarnes Tengdar fréttir Samþykktu að gera úttekt á stjórnsýslu barnaverndarmála á Seltjarnarnesi Tillaga Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi um að gera úttekt á stjórnsýslu barnaverndarmála var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í dag. 12. júní 2019 22:32 Sextán ára stúlka segir að Seltjarnarnesbær hafi sópað fjölda ábendinga um áralanga vanrækslu undir teppið Lögmaður stúlkunnar, fulltrúi í barnaverndarnefnd og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi telja öll að bærinn sé of lítill til að annast barnaverndarmál. 3. júní 2019 19:00 Segir Barnaverndarnefnd Seltjarnarness hafa brugðist barni sem bjó við ofbeldi Sextán ára stúlka og faðir hennar hafa kvartað til Barnaverndarstofu vegna starfa Barnaverndarnefndar Seltjarnarnesbæjar. Stúlkan er sögð hafa búið við verulega vanrækslu af hálfu móður alla ævi. 2. júní 2019 18:30 Segir samfélagið á Seltjarnarnesi hafa brugðist sér 17 ára stúlka sem ólst ein upp hjá móður með geð- og áfengisvanda segir bæjar- og skólastarfsmenn, nágranna og fjölskyldu hafa ítrekað litið fram hjá vanrækslunni og heimilisofbeldinu sem hún varð fyrir af hendi móður sinnar. 24. nóvember 2019 18:30 Mest lesið Synir konunnar lýsa andláti hennar sem létti Innlent Ikea sakað um grænþvott: „Slökkvið á myndavélunum“ Erlent „Það er ekkert drama í þessu – ég rýk ekkert á dyr“ Innlent Daníel fær 24 ára dóm til viðbótar fyrir barnaníð Erlent Eiga yfir höfði sér dauðadóm fyrir að hylja ekki hár sitt Erlent Þau vilja taka við af Helga Grímssyni Innlent Vonbetri eftir daginn í dag Innlent Öskraði þegar hann var leiddur í dómsal Erlent Reyndi að svipta sig lífi í varðhaldi Erlent Framúrskarandi Íslendingur sendur úr landi Innlent
Hin 17 ára Margrét Lillý Einarsdóttir ólst upp á Seltjarnarnesi, ein hjá móður sinni, og segist hafa búið við verulega vanrækslu og ofbeldi alla ævi. Samkvæmt gögnum sem Kompás hefur undir höndum hefur móðirin langa sögu um geð- og áfengisvanda og er ljóst að barnaverndaryfirvöld hafi verið meðvituð um slæmar aðstæður stúlkunnar, að minnsta kosti nokkrum sinnum á uppvaxtarárum Margrétar Lillýjar.Klippa: Kompás - Lokuð á heimilinu með geðveikri móður Margrét Lillý segir barnaverndarnefnd Seltjarnarness og í raun allt samfélagið á Nesinu hafa brugðist sér. Það hafi verið litið undan og ekki brugðist við með réttum hætti. Hún ákvað að segja sögu sína í samráði við sálfræðing sinn þar sem hún getur ekki hugsað sér að önnur börn upplifi það sem hún upplifði. Hún kennir veikri móður sinni ekki um það sem hún hefur þurft að þola, heldur kerfinu.Lokuð inni þegar hún var fimm ára Ljóst er af gögnunum frá barnaverndarnefnd að móðir Margrétar Lillýjar hafi átt við alvarleg veikindi að stríða; Geðhvarfa- og áfengissýki og hefur hún farið í geðrof og haft ranghugmyndir, alveg frá því Margrét Lillý fæddist. Margrét Lillý man fyrst eftir því að hafa verið lokuð inni í marga daga með móður sinni þegar hún var fimm ára.Vísir/VilhelmMargrét Lillý segist fyrst muna eftir veikindum móður sinnar þegar hún var fimm ára þegar hún lokaði þær mæðgur inni á heimilinu. „Ég man eftir því að hún sat og reykti, bakandi köku og bullandi að einhver væri að horfa á okkur. Hún hafði lokað okkur inni í nokkra daga og svo heyri ég lögregluna banka á útidyrahurðina. Það næsta sem ég man er að lögreglan og afi minn eru að brjóta niður hurðina, taka mömmu mína, handtaka hana og fara með á geðspítalann,“ segir Margrét Lillý. Eins og sést af gögnum málsins var móðir hennar svipt sjálfræði. Í veikindunum hafði hún lokað sig og dótturina af í tvær til þrjár vikur og ekki farið með hana í leikskólann. Barnaverndanefnd var kölluð til og var Margrét Lilly vistuð tímabundið hjá móðurforeldrum. Ekki var talin þörf á eftirliti þar sem móðurforeldrarnir hugsuðu vel um hana. Margrét Lillý var fljótlega komin aftur til móður sinnar. Pabbi hennar, Einar Björn, var ekki látinn vita.Vanrækslan viðvarandi Einar Björn og móðirin voru aldrei saman og hefur móðirin alltaf verið með fullt forræði. Í gögnum málsins segir að móðirin hafi haft miklar ranghugmyndir um Einar Björn og umgengni við hann ætíð verið slitrótt. Það var ekki fyrr en móðirin var vistuð á geðdeild síðasta haust að Margrét Lillý var vistuð hjá föður sínum og þá fyrst opnaði Margrét Lillý sig um aðstæður sínar. Í gögnum málsins sést að barnaverndarnefnd Seltjarnarness hafði borist þó nokkrar ábendingar um aðstæður hennar en vanrækslan og ofbeldið var viðvarandi.Margrét Lillý býr nú hjá föður sínum en fyrir það var umgengni við hann ætíð slitrótt. Móðir Margrétar Lillýjar er sögð hafa haft miklar ranghugmyndir um barnsföður sinn.Vísir/VilhelmMargrét Lillý lýsir því að móðir hennar hafi lokað þær af þegar hún gat ekki fúnkerað. „Þegar hún var alls ekki í standi fyrir samfélagið. Stundum tókum við líka bara daga þar sem hún sagði að ég væri slöpp og spurði hvort ég vildi ekki bara nota daginn með henni. Ég sagði aldrei nei því ég hafði svo miklar áhyggjur af henni,“ segir Margrét Lillý. Áhyggjur Margrétar Lillýjar af móður sinni voru miklar frá unga aldri og verndarþörfin mikil. Í gögnunum kemur fram að hún hafi ekki viljað fara frá móður sinni þegar loka átti hana inn á geðdeild, hún hafi bæði verið reið og í uppnámi í hvert skipti. Hún segir að móðir hennar hafi drukkið mikið og dáið brennivínsdauða fyrir framan hana. „Ég var alveg skíthrædd fyrstu skiptin en svo fór ég að venjast þessu.“ Margrét segir að ástandið hafi alls ekki alltaf verið svo slæmt. Stundum hafi móður hennar tekist að hætta að drekka um tíma og þá hafi allt verið betra. Þær mæðgur hafi alltaf verið mjög nánar, móðirin verið ástrík og góð oft á tíðum en svo komu erfiðari tímabil.Barnið illa til reika, óhreint og tætt Þegar Margrét Lillý var níu ára var lögregla kölluð til á heimili mæðgnanna vegna heimilisofbeldis. Barnaverndarstofa var látin vita og í skýrslu segir að móðirin, sem lengi hafi átt við geðræna erfiðleika að etja, hafi verið búin að loka sig inni í nokkra daga með barnið. Margrét Lillý hafi sagt að mamma hennar hafi hvorki eldað né borðað, bara reykt. Sjálf hafi hún borðað snakk þegar maturinn kláraðist. Móðirin hafi talað skringilega og sagt að það væri fólk að koma út úr málverkunum. Í lögregluskýrslu er því lýst að það hafi verið mikið drasl og óþrifnaður á heimilinu. Sjá mátti að búið var að henda niður munum. Barnið hafi verið illa til reika, óhreint og tætt.Kompás hefur gögn frá barnavernd og lögreglu undir höndum. Þar kemur vanrækslan og ofbeldið skýrt fram.vísir/hafsteinn„Ég man eftir því að ég fór ekkert í skólann, ég fór ekkert út úr húsi, ég horfði mest á myndir. Ég hugsaði mest um að passa upp á mömmu mína því hún var auðvitað ekki í góðu standi. Þetta var alveg rosalegt,“ segir Margrét Lillý um aðstæðurnar á þessu tímabili.Sagt að biðja um hjálp ef hún hætti að skilja mömmu Málið var tilkynnt til barnaverndarnefndar Seltjarnarness. Á fjögurra mánaða tímabili hitti félagsráðgjafi Margréti Lillý sex sinnum. Málinu var svo lokað með þeim orðum að mamman þurfi að taka lyfin sín en ekki var talin ástæða til frekari afskipta. Barninu var sagt að biðja um hjálp ef mamma hætti að hugsa um hana og ef hún hætti að skilja hana. Margrét Lillý var níu ára. Sævar Þór Jónsson, lögmaður Margrétar Lillýjar, segir að óskiljanlegt sé að ekki hafi verið gripið meira inn í á þessum tímapunkti. „Hversu oft þurfa að koma upp tilvik eins og þessi þar sem barn er beitt ofbeldi þar til kerfið bregst við. Það er alveg augljóst af gögnum málsins að það er eitthvað mikið að þeim reglum sem barnaverndanefnd Seltjarnanesbæjar á að fara eftir,“ segir Sævar Þór.Sævar Þór Jónsson er lögmaður Margrétar Lillýjar en hún er í málaferli við Seltjarnarnesbæ vegna viðbragðsleysis í hennar málum.Vísir/EgillAftur var Einar Björn, faðirinn, ekki látinn vita og í gögnunum segir að það hafi verið vegna þess að barnið segðist ekki tala við hann lengur. Ekki hafi unnist tími til að kanna það frekar og stúlkan vistuð hjá móðurforeldrum. „Barnavernd hefur aldrei látið mig vita af neinu sem hefur komið upp á. Aldrei hringt í mig. Aldrei tilkynnt mér neitt,“ segir Einar Björn sem er reiður út í Barnaverndarnefnd Seltjarnarnesbæjar.Hefði átt að stappa niður fótum Einar Björn útskýrir að hann hafi í gegnum tíðina reynt að fá sameiginlegt forræði en verandi sjómaður, oft fjarverandi og í óreglu hafi það ekki gengið Hann hafi þó alltaf sótt það stíft að fá að umgangast dóttur sína og ekki síst á seinni árum eftir að hann hætti að drekka en að móðirin hafi eitrað samband þeirra með lygasögum um ofbeldi og áhugaleysi hans. Þau skipti sem hann hafi verið með Margréti Lillý hafi móðirin hringt stanslaust og truflað. Margrét Lillý segist lítið hafa viljað umgangast föður sinn og alls ekki viljað segja honum frá því sem átti sér stað á heimilinu. „Mamma mín og amma og fjöldskyldan reyndu að koma honum eins langt frá mér og þau gátu.“ Einar Björn segir að þrátt fyrir að hafa haft áhyggjur af dóttur sinni í gegn um tíðina hafi hann aldrei órað fyrir því að ástandið væri svona slæmt. Hann finnur þó til ábyrgðar í dag. „Ég kannski hefði átt að stappa niður fótunum eitthvað meira en mér finnst kerfið bara alveg ömurlegt og ég átti aldrei séns,“ segir Einar. Margrét Lillý segir að skiptin hafi verið fleiri sem mamma hennar veiktist illa og hún lokaði þær mæðgur af. „Hún sá ekkert um mig. Hún var bara í þessu veika ástandi þar sem hún gat ekki séð um mig.“ Sumum atburðum mun Margrét Lillý aldrei gleyma og ber þá hæst þegar móðir hennar kramdi páfagaukinn hennar til dauða af því að hún hélt að hann væri myndavél fyrir bankamann.Vísir/Vilhelm„Kramdi páfagaukinn minn til dauða“ Frá því Margrét Lillý flutti til pabba síns fyrir rúmu ári hefur hún unnið úr reynslu sinni með sálfræðingi. Minningarnar eru greiptar í hug hennar. Hún rifjar upp atvik sem kom upp aðra vikuna sem þær höfðu verið lokaðar inni þegar hún var níu ára. „Þetta er eitthvað sem ég mun aldrei gleyma. Ég átti tvo páfagauka. Hún sagði að einn þeirra væri myndavél fyrir bankamann sem væri að reyna stela öllum peningunum frá henni. Hún byrjaði á því að taka einn páfagaukinn minn og henti honum út í ruslið. Þetta var auðvitað dýrið mitt sem ég elskaði mjög mikið og ég grátbað hana um að ná í hann aftur sem hún svo gerði. Svo setti hún hann á gluggakistuna við hliðina á stólnum sínum og beint fyrir framan mig nær hún í sígarettubox og kremur páfagaukinn minn til dauða. Ég algjörlega brotnaði niður,“ segir Margrét Lillý.Í eðli barna að hjálpa mömmu Eins og fram kemur í gögnunum var móðirin mjög háð dóttur sinni, vildi helst hafa hana hjá sér öllum stundum. Eftir skóla átti hún að koma beint heim. Margrét Lillý útskýrir að hún hafi upplifað áreiti frá móður sinni hvert sem hún fór. Þegar hún fór út með vinkonum sínum hringdi mamma hennar stanslaust. Sigríður Gísladóttir, er í stjórn Geðhjálpar, og ólst sjálf upp hjá veikri móður. Hún segir reynslu Margrétar Lillýjar því miður ekki einsdæmi. „Það kemur mér ekki á óvart. Ég held það séu miklu fleiri dæmi sem við vitum ekki um. Þetta er svo mikill feluleikur, bæði að vera með geðsjúkdóm og að vera barn sem á foreldri með geðsjúkdóm,“ segir Sigríður og bætir við að það sé í eðli barna að hjálpa mömmu og pabba ef þau eru veik. „Þau vilja ekki fara af heimilinu, þau vilja passa mömmu og pabba,“ segir hún. Margrét segist einmitt alltaf hafa vilja passa upp á mömmu sína. Ekki viljað að fólk vissi hvað móðir hennar væri veik. Hún hafi þó oft á tíðum verið hrædd um hvað gæti gerst næst, enda sjúkdómur móður hennar óútreiknanlegur.„Ofbeldið var inni í þessu“ „Ég hafði nú þegar séð hana drepa páfagaukinn minn og hún hafði svelt mig stundum og alls ekki farið vel með mig eða húsið. Ofbeldið var inni í þessu,“ segir Margrét Lillý. Móðir hennar hafi orðið mjög ofbeldisfull þegar hún drakk. Hún hafi kýlt hana og sparkað í hana. Einar Björn, faðir hennar, segist aldrei hafa vitað af heimilisofbeldinu. „Ég vissi það ekki fyrr en dóttir mín kom og fór að treysta mér fyrir því að segja mér frá því.“Segir alla hafa verið meðvitaða um vanræksluna Margrét Lillý ítrekar að vissulega hafi komið mörg góð tímabil inn á milli. Hún sé ekki reið út í mömmu sína en sé þó ekki í miklu sambandi við hana í dag. „Mamma mín er auðvitað veik. Ég elska mömmu mína og mun alltaf reyna að styðja hana og hafa hana í lífinu mínu en hún á bara svo erfitt og er svo veik.“Sigríður Gísladóttir hjá Geðhjálp segir fjölda barna vera að upplifa „helvíti heima.“ Mikilvægt sé að fylgst sé grannt með börnum sem eiga veika foreldra.Þegar Margrét Lillý komst á unglingsárin fóru veikindi móður hennar að leggjast þyngra á hana. Hún hafði miklar áhyggjur af heilsu móður sinnar og kvíðinn stigmagnaðist. Móðir hennar tilkynnti hana oft veika í skólann og Margrét Lillý átti erfitt með svefn. „Stundum fór ég að sofa þrjú eða fjögur og þá mætti ég seint í skólann. Þá fóru krakkar að taka eftir því og spyrja mig um það. Fólk tók auðvitað eftir þessu en vildi ekki gera neitt,“ segir Margrét Lillý sem er sannfærð um að skólastarfsmenn, nágrannar og fjölskyldumeðlimir hafi verið vel meðvitaðir um vanræksluna. Annað standist ekki. „Þau vissi auðvitað af þessu. Allir þarna þekkja fjölskylduna mína og mamma mín hringdi oft í skólann og var spyrjandi um þetta og hitt.“Börn sem eru að díla við helvíti heima Margrét Lillý skilur ekki hvers vegna skólinn greip ekki inn í. Hún hafi upplifað sig eina og hjálparlausa. Sjálf þorði hún ekki að biðja um hjálp því hún skammaðist sín og vildi vernda móður sína. Sigríður hjá Geðhjálp bendir á að það þurfi faglært fólk í grunnskólana sem geti fylgst með börnunum. „Það þarf náttúruleg að tala við grunnskólakennarana. Ef börnin eru í skólanum. Það þarf að fylgjast með barninu, þetta eru oft börn sem mæta illa í skóla og eru „óþekk“, börn sem eru að díla við helvíti heima,“ segir Sigríður. Margrét Lillý nefnir dæmi um að ritarinn í skólanum hennar hafi verið nágranni hennar. „Hún bjó við hliðina á okkur. Mamma mín fór oft með mig um nágrennið og var að biðja fólk um að passa mig þegar hún ætlaði út á djammið,“ segir Margrét Lillý.Sagði einu sinni frá Margrét Lillý segist einu sinn hafa leitað hjálpar þegar hún var tólf ára. Þá hafi móðir hennar farið að setja sig í samband við vini hennar og kunningja á samfélagsmiðlum. „Eitt af því var mjög óviðeigandi og fór of langt yfir strikið og ég hafði samband við námsráðgjafann í Valhúsaskóla og sagði henni að mamma mín væri alkóhólisti, hefði ranghugmyndir og hefði gert þennan óviðeigandi hlut,“ segir Margrét Lillý og bætir við að þegar hún hafi komið heim úr skólanum hafi námsráðgjafinn verið búin að hringja í móður hennar sem gerði illt verra. „Þetta var algjörlega hræðilegt tímabil fyrir mig,“ segir Margrét Lillý. Námsráðgjafinn talaði ekki aftur við Margréti Lillý.Óskar þess að fólki hefði ekki verið „drullusama“ Sævar Þór, lögmaður Margrétar, segir að ef farið hefði verið eftir ábendingum hefði ítrekað verið tilefni til að grípa inn í málið af fagaðilum. „Það er þyngra en tárum taki að fara í gegn um gögnin það því það var augljóst af yfirferðinni á þessum gögnum að það hefur átt sér stað einhver verulegur brestur í kerfinu.“Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, segir tilkynningarskylduna mikilvæga og rifjar upp hræðilegt mál sem endaði illa en barnavernd barst ekki ein einasta tilkynning um málið þrátt fyrir að margir vissu af erfiðum aðstæðum fjölskyldunnar.vísir/hafsteinnAð sögn skólastjóra grunnskóla Seltjarnarness tilkynnti skólinn atvik til barnaverndarnefndar á einhverjum tímapunkti. Skólastjórinn getur ekki tjáð sig um málið að öðru leyti. Einnig má sjá í gögnum málsins að nokkrar tilkynningar bárust frá Einari. „Barnavernd á Seltjarnanesi eru engan veginn hæfir til að sinna börnum. Þeir hafa ekkert verið þarna fyrir dóttur mína,“ segir Einar Björn, faðir Margrétar Lillýjar. „Þeir aðilar sem báru ábyrgð á því að gæta hagsmuna barnsins, það er að segja barnaverndarnefndin, vissu af hlutum svo voru langt frá því að vera í lagi en gerðu ekki neitt,“ segir Sævar Þór. Margrét Lillý segir að lögregla hafi tilkynnt barnavernd um heimilisofbeldi í einhver skipti. Þá hljóti nágrannar hennar að hafa tekið eftir þessu. „Þeir heyrðu mig öskra um allt nágrennið frá húsinu mínu. Mér finnst ótrúlegt að engin hafi geta haft samband við einhvern. Bara ósk mín hefði verið að einhverjum hefði ekki verið drullu sama.“ Telur pólitísk- eða vinatengsl hafa haft áhrif Þegar móðir Margrétar Lillýjar var vistuð á geðdeild dvaldi hún hjá afa sínum og ömmu sem hún segir að hafi verið mjög meðvirk með móður hennar. Hún segist hafa notið tímans með þeim. „Það var auðvitað betra en að vera heima með mömmu minni.“ Margrét Lillý er þó sannfærð um að pólitísk- og vinatengls móðurfjölskyldunnar við starfsmenn hjá bænum hafi haft áhrif á að hún hafi aldrei verið tekin af móður sinni. Amma hennar hafi lengi verið í pólitík, til að mynda formaður í einni af nefndum bæjarins á síðasta kjörtímabili. „Þetta var allt vel falið út af fjölskyldunni mini. Þetta er of fín fjölskylda til að einhver geti verið veikur. Seltjarnanes er auðvitað mjög lítið samfélag. Allir þekkja alla, allir vita hver amma, afi og mamma mín eru,“ segir Margrét Lillý.Úrræðaleysi og fjársvelti í barnaverndarmálum Það var ekki fyrr en síðasta haust þegar lögregla var kölluð til á heimili mæðgnanna vegna heimilisofbeldis, að barnaverndarnefnd þótti nauðsynlegt að vista stúlkuna hjá föður sínum, en þá var tekinn til starfa nýr starfsmaður hjá nefndinni. Einar Björn, faðir Margrétar Lillýjar segir starfsmanninn hafa verið undrandi á því að ekki væri löngu búið að vista Margréti Lillý utan heimilis. „Hún segir bara við mig beint út afhverju er stelpan ekki löngu komin til þín eins og ástandið er á þessu heimili. Ég er mjög þakklátur fyrir að það hafi komið ný kona þarna inn sem að skipti sér eitthvað aðeins að þessu,“ segir Einar Björn. Á þessum tímapunkti fer Barnaverndarnefndin í fyrsta sinn fram á lögreglurannsókn vegna heimilisofbeldis. Í beiðni um lögreglurannsókn frá nefndinni segir að stúlkan hafi búið við mikla vanrækslu af hálfu móður alla ævi. Fréttastofa hefur rætt við fyrrverandi starfsmenn barnaverndarnefndar Seltjarnanesbæjar sem ekki vilja koma fram undir nafni. Þeir segja að þeim hafi blöskrað aðgerðaleysið í máli Margrétar Lillýjar en að almennt hafi ríkt úrræðaleysi og fjársvelti í barnaverndarmálum og mörg dæmi um að tilkynningum hafi ekki verið sinnt sem skyldi.Kerfið brást líka móðurinni Margréti Lillý líður eins og allir hafi brugðist sér í æsku. „Fjölskyldan mín, barnavernd og skólinn,“ segir Margrét Lillý og bætir við að í raun hafi allt samfélagið á Nesinu brugðist henni. Sævar Þór, lögmaður Margrétar Lillýjar, tekur undir með henni. Ljóst sé að kerfið hafi einnig brugðist móðurinni. „Það er alveg augljóst að kerfið hefur ekki bara brugðist stelpunni heldur líka móðurinni. Hún er augljóslega mjög veik og hefði þurft að fá stuðning og aðstoð,“ segir hann. Feðginin hafa farið fram á að bærinn viðurkenni bótaábyrgð í málinu enda hafi nefndin átt að vera meðvituð um vanræksluna. Þá hafa þau kvartað til Barnaverndarstofu sem hefur eftirlit með störfum barnaverndarnefnda og Bjarni Torfi Álfþórsson, formaður barnaverndarnefndar Seltjarnarnessbæjar, staðfestir að málið sé í stjórnsýsluferli. Það sé alltaf sé vont þegar fólk sé sakað um að hafa ekki unnið vinnuna sína. Verið sé að skoða málið ásamt fleiri málum sem hafa verið á sviði barnaverndarmála, fimmtán ár aftur í tímann. „Það er utanaðkomandi aðili sem gerir þá úttekt fyrir okkur,“ segir Bjarni Torfi. „þegar litið er aftur á bak þá er stundum hægt að gera meira og stundum minna. Það er þannig þegar borað er í gömul mál,“ segir Bjarni Torfi.Tilkynningarskyldan gríðarlega mikilvæg Heiða Björg Pálmadóttir, forstjóri Barnaverndarstofu, getur ekki tjáð sig um rannsókn málsins en segir að almennt í barnaverndarmálum sé tilkynningarskylda almennings og fagfólks gríðarlega mikilvæg. „Maður hefur stundum á tilfinningunni með minni sveitarfélög, þar sem allir vita allt um alla, að þá haldi fólk kannski að barnaverndarnefnd hljóti að vita um þetta. Það hljóti að vera blússandi stuðningur og tilkynna þess vegna ekki,“ segir Heiða Björg. Þetta sjáist einnig í stærri sveitarfélögum. Heiða Björg rifjar upp skelfilegt mál sem kom upp fyrir fimmtán árum þegar geðveik móðir myrti barn sitt. Alvarlegar áhyggjur voru af fjölskyldunni árum saman en aldrei bárust tilkynningar. „Málið endaði með vofveiflegum hætti. Tilkynningarskyldan er algjörlega grundvallarforsenda þess að hægt sé að bregðast við og hjálpa börnum.“ Margrét Lillý er ekki reið út í móður sína, hún segir hana veika og þurfa aðstoð. Kerfið hafi brugðist þeim báðum.Vísir/VilhelmRengir frásögn Margrétar Lillý Haft var samband við lögmann móður Margrétar Lillýjar viku fyrir umfjöllunina þar sem henni var gefið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Í bréfi sem lögmaður sendi til lögfræðings fréttastofu er frásögn stúlkunnar rengd, gefið í skyn að umfjöllunin sé eingöngu liður í forsjárdeilu föður hennar og til að styrkja skaðabótamál stúlkunnar gegn Seltjarnarnesbæ. Einnig að umfjöllun sem þessi eigi ekki heima í fjölmiðlum. Hér er hægt að lesa bréfið í heild sinni.Horfir bjartsýn til framtíðar Margréti Lillý líður vel hjá pabba sínum í dag og horfir jákvæð til framtíðar. Hún er í námi og finnst hún loksins eiga eðlilegt líf. Hana langar að reyna loka á fortíðina og reynir stundum að láta eins og hún hafi ekki gerst. Hún segist glíma við mikinn kvíða en er að vinna í sínum málum. „Ég reyni að halda áfram með lífið, þetta yndisleg líf mitt,“ segir Margrét Lillý og brosir. Hún segist vera mjög þakklát fyrir að hafa kynnst mömmu sinni sem persónu. „Ekki þessum sjúkdóm heldur bara þessari konur. Hún er virkilega æðisleg, hún virkilega er það,“ segir Margrét Lillý sem óskar þess að móðir sín hefði fengið meiri hjálp. „Kerfið brást bæði mér og mömmu minni.“
Samþykktu að gera úttekt á stjórnsýslu barnaverndarmála á Seltjarnarnesi Tillaga Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi um að gera úttekt á stjórnsýslu barnaverndarmála var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í dag. 12. júní 2019 22:32
Sextán ára stúlka segir að Seltjarnarnesbær hafi sópað fjölda ábendinga um áralanga vanrækslu undir teppið Lögmaður stúlkunnar, fulltrúi í barnaverndarnefnd og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi telja öll að bærinn sé of lítill til að annast barnaverndarmál. 3. júní 2019 19:00
Segir Barnaverndarnefnd Seltjarnarness hafa brugðist barni sem bjó við ofbeldi Sextán ára stúlka og faðir hennar hafa kvartað til Barnaverndarstofu vegna starfa Barnaverndarnefndar Seltjarnarnesbæjar. Stúlkan er sögð hafa búið við verulega vanrækslu af hálfu móður alla ævi. 2. júní 2019 18:30
Segir samfélagið á Seltjarnarnesi hafa brugðist sér 17 ára stúlka sem ólst ein upp hjá móður með geð- og áfengisvanda segir bæjar- og skólastarfsmenn, nágranna og fjölskyldu hafa ítrekað litið fram hjá vanrækslunni og heimilisofbeldinu sem hún varð fyrir af hendi móður sinnar. 24. nóvember 2019 18:30