Körfubolti

Matthías Orri og dómararnir fastir á Akureyri

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Matthías Orri er hér í Hlíðarfjallinu í kvöld á leið í ræktina þar sem hann fékk ekki að spila körfubolta.
Matthías Orri er hér í Hlíðarfjallinu í kvöld á leið í ræktina þar sem hann fékk ekki að spila körfubolta. mynd/matosig

Fresta varð leik Þórs og KR á Akureyri í kvöld vegna ófærðar norður. Það eru sérstaklega vond tíðindi fyrir þá sem þegar voru komnir norður og sitja þar fastir núna.

Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður KR, og dómarar leiksins tóku flug til Akureyrar í morgun og voru því fyrstir á staðinn.

Einhverjir leikmenn KR ætluðu sér að taka flug um miðjan dag en það flug var fellt niður. Meirihluti leikmannahóps KR fór þó akandi en snúa varð bílnum við á Blönduósi þar sem það var orðið ófært til Akureyrar.

Matthías og dómararnir verða því á Akureyri í nótt og vonast eftir því að komast suður í fyrramálið.

„Fjölskyldan mín var hérna fyrir norðan í bústað og ég kom bara beint í lambalæri og hef það gott. Við komumst svo vonandi heim á morgun,“ sagði Matthías Orri við Vísi.

Leikur Þórs og KR getur ekki farið fram fyrr en í febrúar þar sem janúar er þéttskipaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×