Ríkjandi bikarmeistarar Álaborgar eru úr leik í dönsku bikarkeppninni í handbolta eftir tap fyrir GOG í stórleik í 8-liða úrslitum.
Íslendingaliðin tvö spiluðu til úrslita í dönsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, en GOG hefur átt aðeins erfiðara uppdráttar á þessu tímabili og er aðeins í áttunda sæti deildarinnar.
GOG lét það hins vegar ekki hafa áhrif á sig og sótti sterkan 25-24 sigur á útivelli gegn Álaborg og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitum keppninnar.
Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði eitt mark fyrir GOG líkt og Arnar Freyr Arnarsson en Viktor Gísli Hallgrímsson átti mjög góðan leik í marki GOG, varði 14 bolta og var með 37 prósenta markvörslu.
Janus Daði Smárason hefur oft verið atkvæðameiri fyrir Álaborg, hann skoraði þrjú mörk fyrir ríkjandi meistarana.
Handbolti