Golf

Guðmundur Ágúst og Valdís Þóra eru kylfingar ársins 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Valdís Þóra Jónsdóttir.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Valdís Þóra Jónsdóttir. Mynd/Golfsamband Íslands

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi hafa verið valin bestu kylfingar ársins 2019.

Þetta er í 22. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í þriðja sinn sem Valdís Þóra fær þessa viðurkenningu en í fyrsta sinn sem Guðmundur Ágúst fær þessa viðurkenningu.



Guðmundur Ágúst Kristjánsson er 27 ára, varð Íslandsmeistari í höggleik á árinu í fyrsta skipti. Hann lék á Nordic Golf League atvinnumannamótaröðinni þar sem hann sigraði á þremur mótum og vann sér um leið þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni sem er næststerkasta atvinnumannamótaröð í Evrópu. Hann komst inn á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Guðmundur hóf árið í 1656. sæti á heimslista atvinnumanna en er nú efstur Íslendinga í 558. sæti.

Valdís Þóra Jónsdóttir er þrítug, er kylfingur ársins í þriðja sinn. Hún lék sitt þriðja tímabil á Evrópumótaröðinni í golfi og endaði tímabilið í 71. sæti á stigalista mótaraðarinnar. Valdís náði sínum besta árangri í Ástralíu í mars þegar hún lenti í 5. sæti. Valdis var lengi vel í forystu í mótinu en hún lék á 63 höggum á fyrsta hring, sem var besta skor mótsins.

Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á 7 mótum af 14 á Evrópumótaröðinni á árinu. Hún komst inn á 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum og verður með takmarkaðan keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni á næsta tímabili.

Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×