Lífið

Auður bauð for­manni SAF á tón­leika: „Hann er mjög ein­lægur í sínum flutningi“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn Auður hélt tónleika á Café Flóru í Laugardalnum í kvöld og bauð Bjarnheiði Hallsdóttur, formanni SAF, að koma.
Tónlistarmaðurinn Auður hélt tónleika á Café Flóru í Laugardalnum í kvöld og bauð Bjarnheiði Hallsdóttur, formanni SAF, að koma.
Tónlistarmaðurinn Auður bauð Bjarnheiði Hallsdóttir, formanni Samtaka ferðaþjónustunnar, á tónleika sína á Café Flóru í Laugardalnum í kvöld.

Það væri ef til vill ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að fyrr í vikunni gagnrýndi Bjarnheiður að Auður skyldi flytja lagið sitt Freðinn á Tónaflóði Rásar 2 á Menningarnótt.  

Sagði hún listamanninn upphefja vímuástand og spurði hvort að fólki fyndist það í lagi að slíkt væri á dagskrá snemma kvölds á fjölskylduskemmtun á vegum Ríkisútvarpsins.





Í samtali við Vísi segir Bjarnheiður að tónleikarnir í kvöld hafi verið frábærir.

„Þetta var einlægur og flottur tónlistarflutningur. Hann er mjög flottur tónlistarmaður enda var ég ekki að gagnrýna listamanninn í þessari færslu heldur stundina og staðinn,“ segir Bjarnheiður.

Hún segist hafa þegið boðið á tónleikana með þökkum.

„Og ég átti góða kvöldstund með sambýlismanni og tveimur 13 ára drengjum. Það er mjög skemmtilegt að hlusta á hann, hann er mjög einlægur í sínum flutningi,“ segir Bjarnheiður.

Sama dag og Vísir fjallaði um gagnrýni Bjarnheiðar greindi hún frá því á Facebook að hún og Auður hefðu átt gott samtal í síma.





„Sem lauk á því að hann bauð mér á tónleikana,“ segir Bjarnheiður.

Hún segir það misskilning að hún hafi verið að gagnrýna listamanninn sjálfan.

„Ég var meira að gagnrýna textann, stundina og staðinn en í réttu umhverfi og á réttum stað og í réttu samhengi er hann alveg frábær.“

Spurð hvort hún telji að Auður hafi tekið þessu persónulega segir Bjarnheiður:

„Nei, það virtist ekki vera. Það fór vel á með okkur í símtalinu.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.