Íslenski boltinn

Þróttur vann sterkan sigur á Leikni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Úr leik liðanna síðasta sumar
Úr leik liðanna síðasta sumar fréttablaðið/ernir
Þróttur vann mikilvægan sigur á Leikni, Grótta og Fjölnir skildu jöfn og Afturelding sigraði Magna í Inkassodeild karla í kvöld.

Þrótturum hafði gengið illa að safna stigum það sem af er sumri en náðu í mikilvæg þrjú stig á Eimskipsvellinum.

Það var markalaust í hálfleik eftir að Sævar Atli Magnússon náði ekki að skora úr vítaspyrnu sem Leiknir fékk undir lok fyrri hálfleiks.

Fyrsta mark leiksins kom á 72. mínútu, það gerði Rafael Victor fyrir Þrótt. Hann bætti svo öðru marki við fjórum mínútum seinna og Jasper van der Heyden tryggði heimamönnum sigurinn með marki á 80. mínútu. Leiknum lauk með 3-0 sigri Þróttar.

Það var fallslagur á Varmárvellinum í Mosfellsbæ þar sem Afturelding tók á móti Magna.

Mikið fjör var á upphafsmínútum leiksins en Jason Daði Svanþórsson kom heimamönnum yfir strax á annari mínútu. Kristinn Þór Rósbergsson jafnaði hins vegar fyrir Magna á 16. mínútu.

Alexander Aron Davorsson kom Aftureldingu aftur yfir á 21. mínútu og Jason Daði skoraði annað mark sitt áður en hálfleikurinn var úti.

Rólegra var yfir seinni hálfleik og aðeins eitt mark skorað, það gerði Hafliði Sigurðarson á 57. mínútu. Afturelding fór með sterkan 4-1 sigur.

Á Seltjarnarnesi skildu Grótta og Fjölnir jöfn í markalausum leik.

Fjölnir er á toppi deildarinnar með 13 stig. Grótta, Leiknir og Þróttur eru öll um miðja deild, Leiknir með níu stig, Grótta átta og Þróttur sjö.

Afturelding sendi Hauka niður í fallsæti með sigrinum, fer upp í tíunda sætið með sex stig.

Upplýsingar um úrslit og gang mála eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×