Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri hefur nú þegar tryggt sér sæti í 16 liða úrslitum á heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni þessa dagana.
Það gerði íslenska liðið með sigri sínum gegn Danmörku á laugardaginn. Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur hjá Íslandi í þeim leik með níu mörk og Viktor Gísli Hallgrímsson varði hátt í 20 skot í leiknum.
Þrátt fyrir að vanti nokkra sterka leikmenn hjá íslenska liðinu í þessum aldursflokki hefur liðið haft betur í þremur af fjórum leikjum sínum í riðlinum en liðið mætir Þýskalandi í lokaumferð riðlakeppninnar klukkan 12.00 að íslenskum tíma í dag.
Fyrir lokaumferðina er Ísland á toppi riðilsins með jafn mörg stig og Danmörk og Þýskaland en Noregur kemur þar á eftir með fjögur stig. Keppni í 16 liða úrslitum fer fram á miðvikudaginn en þar gæti Ísland mætt Króatíu, Ungverjalandi, Brasilíu eða Portúgal.
