Lífið

Hollendingur fljúgandi fékk höfðinglegar móttökur á Dan Panorama hótelinu í nótt

Stefán Árni Pálsson í Tel Aviv skrifar
Laurence var vinsæll á barnum í gær. Hann fór aftur á móti fljótlega upp á herbergi.
Laurence var vinsæll á barnum í gær. Hann fór aftur á móti fljótlega upp á herbergi.
Hollendingurinn Duncan Laurence er langsigurstranglegasti keppandinn í Eurovision í ár. Þegar þessi grein er skrifuð telja veðbankar 46 prósent líkur á hollenskum sigri í ár.

Laurence flutti lagið Arcade í Expo-höllinni í Tel Aviv í gær og það á seinna undanúrslitakvöldinu í Eurovision og flaug hreinlega upp úr riðlinum.

Laurence dvelur á Dan Panorama hótelinu við ströndina í Tel Aviv, rétt eins og íslenski hópurinn og fleiri þjóðir.

Þegar Laurence kom á staðinn rétt eftir klukkan tvö að staðartíma í nótt biðu fjölmargir Hollendingar í anddyri hótelsins og mikil fagnaðarlæti brutust út þegar hann gekk inn í húsið.

Duncan Laurence við píanóið á stóra sviðinu í Expo Tel Aviv höllinni í gær.Getty/Guy Prives
Því næst var farið á barinn og skálað en Duncan Laurence ræddi lengi við írsku söngkonuna Sarah McTernan sem komst ekki áfram í gær.

Maltverjar fögnuðu einnig á hótelinu en Malta var síðasta þjóðin sem komst áfram í úrslit í gær. Hópurinn hafði greinilega ekki fengið mikla næringu í höllinni en Maltverjar pöntuðu sér um tuttugu Domino´s pizzur á barinn.

Í kvöld fer fram dómararennsli í Expo-höllinni og síðan er aðalkeppnin á morgun. Þær þjóðir sem komust áfram í gær eru því að koma fram fjögur kvöld í röð sem gæti tekið á, bæði líkamlega og andlega. Íslenski hópurinn hefur nú fengið tvo daga í frí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.