Naomi Osaka hafði betur gegn Williams í úrslitaleiknum, hennar lang stærsti sigur á ferlinum og varð hún fyrsta japanska konan til þess að vinna risamót.
Eftir leikinn snerist hins vegar allt um Williams sem missti algjörlega stjórn á skapi sínu við dómara leiksins og kallaði hann meðal annars þjóf og sakaði hann seinna um kynbundið misrétti.
Serena bað Osaka afsökunar á hegðun sinni og hefur hin japanska tekið hana í sátt, en Williams heldur því enn fram að dómarinn hefði ekki dæmt eins mikið gegn henni ef hún væri karlmaður.
„Afhverju er það þannig að þegar konur verða ástríðufullar eru þær sagðar í tilfinningalegu uppnámi, brjálaðar eða órökrænar?“ spurði Serena í viðtali við Harper's Bazaar.
„Það er svo algengt að þegar karlmenn mótmæla dómurum og standa fyrir sínu þá fái þeir bros til baka, jafnvel hlátur, frá dómaranum.“
„Ég er ekki að biðja um það að það verði aldrei dæmt á mig. Ég er bara að biðja um að það verði komið fram við mig eins og alla aðra.“
Williams, sem hefur unnið 23 risatitla á ferlinum, sagðist hafa þurft að leita sér aðstoðar sálfræðings því hún hafi ekki getað tekið upp tennisspaðann eftir þetta.
„Loksins áttaði ég mig á því að eina leiðin fyrir mig til þess að halda áfram var að biðja manneskjuna afsökunar sem átti það mest skilið,“ sagði Williams.
„Það láku tár niður andlitið þegar ég las svar Naomi: „Fólk getur misskilið reiði sem styrk því það getur ekki aðgreint þar á milli. Enginn hefur staðið upp fyrir sjálfum sér eins og þú hefur þurft að gera og þú þarft að halda því áfram“.“
Serena Williams er í eldlínunni á Wimbledon mótinu þessa dagana. Þar er hún komin í undanúrslit í einliðaleik og hún stelur senunni með Andy Murray í tvenndarleik, þau komust áfram í 16-liða úrslitin í gær.