Matur

Aðventumolar Árna í Árdal: Skata

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi kom öllum í rétta hátíðarskapið og reiddi fram einn rétt á dag fram að jólum.
Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi kom öllum í rétta hátíðarskapið og reiddi fram einn rétt á dag fram að jólum. Vísir/Árni

Á hverjum degi fram að jólum birtum við uppskrift frá Aðventumolum Árna í Árdal sem sýndir eru á Stöð 2 í desember. Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi kom öllum í rétta hátíðarskapið og reiddi fram einn rétt á dag fram að jólum.  Með einskærri lífsgleði og eldmóð hefur Árni sérstakan hæfileika til að hrífa fólk með sér. Hér nær hann svo sannarlega að veita áhorfendum innblástur og töfrar fram bragðgóða og spennandi rétti alla aðventuna.

Aðventumolann má sjá hér í spilaranum að neðan en uppskrift og leiðbeiningar er að finna neðar í fréttinni.

Klippa: Skata - Aðventumolar Árna í Árdal

hugum margra er sú hefð að borða skötu á Þorláksmessu ævagömul, en hún er það aðeins á Vestfjörðum, því  það eru ekki nema nokkrir áratugir síðan hefðin var tekin upp á höfuðborgarsvæðinu. Á aðventunni á miðöldum, jólaföstunni eins og hún kallast einnig, var fastað að kaþólskum sið og ekki mátti borða kjöt í fjórar vikur fyrir jól. Mikið var þá borðað af fiski og á Þorláksmessu átti að borða sérlega lélegt fiskmeti til að munurinn á hversdagsmatnum og jólakræsingunum yrði sem mestur. Hefðirnar voru mismunandi eftir landshlutum en þar sem mikið veiddist af skötu á Vestfjarðamiðum í desember varð hún fyrir valinu á Vestfjarðakjálkanum.

Það virðast ekki margir átta sig á því en það er einnig hægt að borða skötuna ókæsta og er hún algert lostæti. Hér eru hún að frönskum hætti með brúnuðu smjöri, kapers og sítrónu, à la grenobloise.

Innihald

Skata

1 kíló roðflett skötubörð (um 8-12 börð)

Salt og nýmalaður svartur pipar

50 grömm hveiti

50 grömm smjör, meira ef þarf

Grenobloise-sósa

2 sítrónur

100 grömm smjör

25 grömm kapersber

1 matskeið fínsöxuð steinselja

50 grömm ristaðir brauðteningar

Leiðbeiningar

  1. Skata - Forhitið ofn í 100°C. Hitið stóra viðloðunarfría pönnu við meðalháan hita. Saltið og piprið skötubörðin, veltið úr hveiti og hristið megnið af hveitinu af. Bræðið um fjórðung smjörsins á pönnuna og steikið fiskinn þar til hann er orðinn gullinbrúnn, um 2 mínútur. Eldið 3-4 skötubörð í einu, annars soðnar fiskurinn í stað þess að steikjast og brúnast vel. Snúið börðunum með fiskispaða og eldið í aðrar 2 mínútur. Flytjið fiskinn yfir á stóran disk og haldið heitum í ofninum. Hreinsið pönnuna og bætið nýju smjöri á hana á milli steikinga.

  2. Grenobloise-sósa - Skerið báða endana af sítrónunum og því næst allan börkinn þannig að aðeins sjáist í aldinkjötið og enginn hvítur börkur situr eftir. Skerið á milli himnanna og náið þannig aldinkjötinu úr í bátum. Skerið bátana í bita á stærð við kapersberin og setjið í skál. Kreistið safann úr himnunum í skál og notið í aðra matargerð. 

  3. Bræðið smjörið fyrir sósuna á pönnu við miðlungshita. Hringsnúið pönnunni af og til og strjúkið botninn með sleikju. Hitið smjörið þar til mjólkurþurrefnin hafa brúnast og það ilmar eins og heslihnetur, það tekur um 3 mínútur.

  4. Bætið þá við sítrónubitum og kapersberjum.Takið af hitanum.

  5. Ausið sósunni yfir fiskinn, stráið steinseljunni yfir ásamt ristuðum brauðteningum. Berið fram með soðnum kartöflum.


Tengdar fréttir

Aðventumolar Árna í Árdal: Kalkúnn

Árni Ólafur úr Hinu blómlega búi mun koma öllum í rétta hátíðarskapið og reiða fram einn rétt á dag fram að jólum.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.