Körfubolti

Kristófer segist hafa upplifað rasisma í fyrsta sinn í Síkinu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristófer í leik með KR.
Kristófer í leik með KR. Fréttablaðið/eyþór
Kristófer Acox, leikmaður KR, upplifði blendnar tilfinningar í dramatískum sigri Vesturbæjarliðsins á Tindastóli á Sauðárkróki í kvöld.

Hann greinir frá því á Twitter að hann hafi í fyrsta skipti á ferlinum upplifað kynþáttaníð af hendi stuðningsmanns Tindastóls meðan á leiknum stóð.

„aldrei upplifað rasisma allan minn feril, þannig kom mér verulega á óvart þegar ég heyrði “Ingi, taktu Kristó útaf og settu hann í apabúrið” frá stuðningsmönnum UMFT í kvöld. leyfi þessu hinsvegar ekki að eyðileggja frábæran sigur, en svona á ekki heima í íþróttum - gerum betur!,“ skrifaði Kristófer á Twitter í kvöld.

KR vann frábæran sigur í Síkinu í kvöld eftir að hafa verið tuttugu stigum undir í fyrri hálfleik en Kristófer átti fínan leik í kvöld. Hann skoraði níu stig og tók sjö fráköst.

Kristófer samdi í sumar við Denain Voltare í frönsku B-deildinni en snéri aftur til KR í byrjun nóvember eftir að hafa ekki fundið fjölina í Frakklandi.

Uppfært klukkan 0:06 með yfirlýsingu frá Körfuknattleiksdeild Tindastóls að neðan:

Stjórn KKD Tindastóls harmar og jafnframt fordæmir það atvik sem átti sér stað í leik Tindastóls og KR í Dominosdeild karla í kvöld (fimmtudag) í Síkinu. Enginn einstaklingur á að þurfa að upplifa fordóma eða rasisma og er það hlutverk allra sem koma að íþróttinni að standa saman um að útrýma svoleiðis hegðun.

Stjórn KKD Tindastóls vil biðja leikmann KR, Kristofer Acox, innilegrar afsökunar á framferði stuðningsmanns Tindastóls. Verður þetta atvik tekið föstum tökum og mun stjórn KKD Tindastóls gera allt í sínu valdi til að komast til botns í þessu máli ásamt því að fyrirbyggja að svona háttsemi endurtaki sig.

Fh KKD Tindastóls

Ingólfur Jón Geirsson

Formaður

 


Tengdar fréttir

Rosalega erfitt að vera burtu frá mömmu

Körfuboltamaðurinn Kristófer Acox, sem spilar með Furman-háskólanum í Bandaríkjunum, trónir á toppnum yfir flest fráköst í sínum riðli. Hann segir lífið geta verið erfitt svo langt frá móður sinni og vinum en hefur þó endurnýjað sambandið við föður sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×