Körfubolti

Matthías: "Eitt það mest svekkjandi sem ég hef lent í“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Matthías Orri sækir að körfunni í kvöld
Matthías Orri sækir að körfunni í kvöld vísir/daníel
Matthías Orri Sigurðarson stóð við loforð sitt frá síðasta tímabili og kom ÍR í úrslit Domino‘s deildar karla. Hann náði þó ekki að fara alla leið, ÍR tapaði fyrir KR í oddaleik í DHL höllinni í kvöld.

„Varnarleikurinn var hræðilegur. Þeir voru bara tilbúnir, voru aðeins ferskari og hittu úr skotunum sínum. Þeir áttu bara kvöldið og til hamingju KR. Þeir voru frábærir í kvöld,“ sagði Matthías í leikslok. KR vann leikinn 98-70.

ÍR fór lengri leið en KR í úrslitin, í gegnum tvær seríur sem fóru allar í oddaleik á meðan KR kláraði sínar seríur 3-0 og 3-1. Matthías vildi þó ekki nota þreytu sem afsökun.

„Það gæti alveg verið en mér finnst að það ætti ekki að vera þannig. Við vorum bara einfaldlega ekki nógu beittir í dag. Varnarlega vorum við bara hræðilegir og náðum ekki að fylla upp í skarð Capers.“

„KR-ingar voru bara frábærir, ég get eiginlega ekki tekið neitt af þeim.“

ÍR-ingar ættu þó að geta farið nokkuð sáttir frá borði eftir að hafa rétt komist inn í úrslitakeppnina, slegið út deildarmeistarana og liðið í öðru sæti og farið alla leið í oddaleik í úrslitum.

„Já, við gerum það. En ég get sagt að sama skapi að þetta er með því mest svekkjandi sem ég hef lent í. Að vera 2-1 yfir, fara á heimavöll og tapa naumum leik. Það er erfitt að kyngja þessu.“

Síðasta sumar var orðrómur um að Matthías væri á leið úr Breiðholtinu og heim í sitt uppeldisfélag, KR. Hvar verður hann þegar Domino‘s deildin fer í gang að ný í október 2019?

„Ég veit ekkert um það. Ég er ekkert byrjaður að hugsa um það. Ég þarf að byrja á að laga hnéð á mér, laga ökklann á mér, laga mjöðmina á mér og svo sé ég til hvað ég geri. Fyrst og fremst þarf ég bara að taka mér smá frí og kúpla mig út úr körfuboltanum,“ segir hinn 24 ára Matthías Orri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×