Íslenski boltinn

Kári fer í myndatöku í dag: „Vinnum þennan bikar með eða án hans“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári lék sinn 79. landsleik í gær.
Kári lék sinn 79. landsleik í gær. vísir/bára
Seinna í dag kemur í ljós hvort Kári Árnason geti tekið þátt í úrslitaleik Mjólkurbikars karla á laugardaginn. Þar mætast Víkingur og FH. Þetta er fyrsti bikarúrslitaleikur Víkinga í 48 ár.

Kári meiddist í 4-2 tapi Íslands fyrir Albaníu í undankeppni EM 2020 í gær. Hann fer í myndatöku síðdegis og þá kemur í ljós hvort Víkingar geti nýtt krafta hans á laugardaginn. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, er ekkert alltof bjartsýnn á það.

„Hann fer í myndatöku klukkan 16:00 í dag og þá ættum við að vita hvort eitthvað er slitið. Ef svo er ekki er smá von að tjasla honum saman. Vonin er víst það síðasta sem mannskepnan tapar þannig að við reynum að halda í hana,“ sagði Arnar við Vísi á blaðamannafundi fyrir bikarúrslitaleikinn í dag.

En hvernig leið honum þegar Kári byrjaði að haltra í leiknum í Albaníu í gær?

„Mér leið ömurlega fyrir hans hönd. Þetta var hræðilegt því hann er svo mikill Víkingur. Það er hrikalega leiðinlegt fyrir hann ef hann missir af úrslitaleiknum,“ sagði Arnar.

„Fyrir mig sem þjálfara var þetta líka hræðilegt að sjá þetta. En þegar ég vaknaði í morgun sá ég ný tækifæri fyrir nýja leikmenn. Það verða ellefu gegn ellefu í leiknum og við verðum flottir á laugardaginn. Við vinnum þennan bikar með eða án Kára.“

Leikurinn í gær var annar leikur hins 37 ára Kára á fjórum dögum. Hann lék allan tímann þegar Ísland vann Moldóvu, 3-0, á laugardaginn.

„Það er frábært fyrir hann að spila á hæsta getustigi í svona mikilvægum leikjum. Honum var ekki gerður neinn greiði; ferðalagið, stutt á milli leikja, grenjandi rigning og svo var liðið mjög opið í fyrri hálfleik þannig að hann þurfti að hlaupa mikið,“ sagði Arnar.

„Það voru margar þungar lappir í gær og maður fór að hafa áhyggjur þegar leið á seinni hálfleik hvort kallinn þyrfti að skipta sér út af. En fyrir hann og Víking er frábært að hann sé ennþá í landsliðinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×