Enski DJ-inn Jonas Blue mun stíga í skarðið sem ökklabrot hollenska plötusnúðarins Martin Garrix skildi eftir sig á Secret Solstice tónlistarhátíðinni sem fram fer seinna í mánuðinum.
Garrix neyddist í vikunni til þess að afboða sig en hann lenti í óhappi á tónleikum í Bandaríkjunum í lok síðasta mánaðar og þarf að gangast undir aðgerð til þess að fá meina sinna bót.
Nú er það ljóst að hinn 29 ára gamli Jonas Blue frá Chelmsford í Englandi mun stíga á svið í Laugardalnum í hans stað.
Jonas hefur gefið út eina plötu, Blue sem kom út í lok síðasta árs. Útgáfur hans af þekktum lögum hafa vakið athygli í gegnum tímans rás og má þar helst nefna slagarann Fast Car sem upphaflega er með Tracy Chapman, í útgáfu sinni naut Jonas Blue aðstoðar söngkonunnar Dakota. Á meðal annarra þekktra laga eftir kappann eru Mama, Perfect Strangers og Alien.
Þá kom Jonas Blue fram fyrir úrslitaleik Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla milli ensku liðanna Chelsea og Arsenal í Bakú í Aserbaídsjan í maí.
Þá hefur verið gefið út Secret Solstice app þar sem hægt er að fá aðgang að dagskrá hátíðarinnar auk frekari upplýsinga um hátíðina.
Jonas Blue kemur í stað Martin Garrix á Secret Solstice
Tengdar fréttir
Martin Garrix ökklabrotinn og spilar ekki á Solstice í ár
Hollenski plötusnúðurinn Martin Garrix mun ekki stíga á svið á tónlistarhátíðinni Secret Solstice eins og áætlað hafði verið.