Körfubolti

KR-ingar semja við bandarískan leikstjórnanda með ítalskt vegabréf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike DiNunno.
Mike DiNunno. Vísir/Getty
Íslandsmeistarar KR hafa styrkt sig með nýjum erlendum leikmanni fyrir seinni hluta tímabilsins í Domino´s deild karla í körfubolta.

KR mun tefla fram Mike DiNunno í næsta leik sínum sem er á móti Keflavík en þetta kemur fram á ruv.is.

Mike DiNunno er Bandaríkjamaður, fæddur í Illinois fylki en hann er með ítalskt ríkisfang og má því spila á sama tíma og hinn bandaríski leikmaður KR-liðsins sem er Julian Boyd.

Julian Boyd spilar mun nær körfunni en Mike DiNunno sem er leikstjórnandi og spilaði með tveimur skólum, Northen Illinois og Eastern Kentucky, í bandaríska háskólaboltanum frá 2008 til 2013.

DiNunno var með 14,8 stig og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í leik á lokatímabilinu sínu með Eastern Kentucky skólanum 2012-13.

Mike DiNunno er nú orðinn 28 ára gamall en hann hefur náð sér í talsverða reynslu í Evrópu þar sem hann hefur spilað í Grikklandi, á Ítalíu, í Englandi og í Búlgaríu.

KR-ingar hafa verið duglegir að bæta við sig leikmönnum að undanförnu en Helgi Már Magnússon spilaði líka sinn fyrsta leik með liðinu í sigrinum á Skallagrími í gær.

Áður hafði KR bætt við sig Kristófer Acox og Finn Atla Magnússyni auk þess sem Pavel Ermolinskij lék nokkra leiki með liðinu í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×