Axel Kárason hefur tekið körfuboltaskóna af hillunni og mun mæta á parketið með Tindastóli seinni hluta Domino's deildar karla.
Axel tilkynnti í sumar að hann ætlaði að taka sér frí frá körfuboltanum en hann verður 36 ára í febrúar. Axel kom fyrst inn í meistaraflokkshópinn hjá Stólunum í byrjun þessarar aldar.
„Ég kem inn í þennan hóp og reyni að finna eitthvert hlutverk þar sem ég get hjálpað til,“ sagði Axel við Morgunblaðið í morgun.
„Ég saknaði boltans og saknaði þess að vera í hringiðunni. Ég fann aðeins fyrir því að lífið var kannski fullrólegt fyrir áramót.“
Axel var hluti af Tindastólsliðinu sem vann sinn fyrsta titil fyrir ári síðan er Stólarnir lyftu bikarmeistaratitlinum í Laugardalshöll í byrjun árs 2018.
Hann gæti nú orðið hluti af liðinu sem vinnur Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti en Stólarnir eru á toppi deildarinnar eftir fyrri hluta tímabilsins.
Axel mættur aftur í Síkið

Tengdar fréttir

Axel tekur sér frí frá körfubolta og ætlar að vinna í veikleikum sínum
Fyrrum landsliðsmaðurinn Axel Kárason mun ekki taka slaginn með Tindastóli í Dominos-deild karla í vetur. Hann útilokar þó ekki að snúa aftur næsta vetur og segist ekki vera hættur.