Körfubolti

Brynjar: Við kokgleyptum við öllu sem þeir vildu að við gerðum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Brynjar var ekki sáttur í kvöld.
Brynjar var ekki sáttur í kvöld. vísir/daníel
„Já þetta eru gríðarleg vonbrigði og það er engin spurning. Það er eitthvað að og þetta var bara körfubolta skólun sem við fengum í dag,“ sagði grautfúll Brynjar Þór Björnsson eftir vont tap Tindastóls á móti Stjörnunni fyrr í kvöld.

„Við sjáum þarna lið sem er á fleygiferð í átt að deildarmeistaratitlinum. Gríðarlega vel mannaðir og kunna leikinn upp á tíu. Vita hverja þeir eiga að dekka vel og vita hvert þeir eiga að gefa hann til að fá færin. Sóknarlega voru þeir kannski ekkert stórkostlegir, hittu ekkert rosalega vel en þetta var bara körfuboltaskóli. Körfubolti 101.“

Brynjari var bent á að hans lið væri nú líka vel mannað lið sem hafi verið á toppi deildarinnar um áramót en niðursveiflan eftir áramót væri rosaleg. Hvað er það sem veldur að mati Brynjars?

„Ákveðnar breytingar áttu sér stað hérna, við vorum í góðu flæði og það var góður andi í öllu þar sem menn brugðust rétt við þegar á móti blés. Núna erum við bara að hlaupa frá A til B. Það sem Stjarnan var að gera við okkur í kvöld til dæmis var bara að senda mig til dæmis á einhvern ákveðinn stað og ég bara kokgleypti við því og ég fór að gera eitthvað annað til að þannig hreyfa vörnina. Við bara kokgleyptum allt sem Stjarnan vildi að við gerðum og þegar þú gerir það þá lítur þú bara illa út.“

„Við erum búin að spila 80 mínútur saman í vetur og þeir bara kunna kerfin okkar upp á 10 og þeir búnir að gera allt upp á 10 og þá þarf að lesa leikinn og þar kemur að einum hlut sem við höfum ekki verið góðir í eftir áramót og það er að bregðast við aðstæðum og bregðast við því þegar varnarmaður fer frá manni að maður hlaupi ekki bara í fangið á honum heldur stoppi og fái þannig opið skot.“

Tindastóll er í vandræðum og það er klárt og var Brynjar sammála því að ógnin væri lítil inn í teig og að lesturinn á vörninni væri ekki nógu góður.

„Þetta er það sem ég var að reyna að segja eftir seinasta leik að við erum ekki djúpir og förum ekki djúpt í sóknarleikinn og erum ekki að hreyfa boltann nógu vel. Varnarlega, spilum við nokkuð góða vörn og það vantaði ekkert upp á ákefðina sérstaklega framan af en það vantar að skora boltanum og þar gátum við bara einfaldlega ekki skorað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×