Þetta segir Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningadeildar Capacent.
Gengi í hlutabréfum flugfélagsins Icelandair hækkaði um 7,52 prósent í gær á meðan samninganefnd flugfélagsins WOW Air fundaði stíft með fulltrúum bandaríska fjárfestingasjóðsins Indigo Partners í höfuðstöðvum WOW á Höfðatorgi í gær.

Gengi í hlutabréfum Icelandair hefur hækkað um 5,5 prósent það sem af er degi en Snorri segir í samtali við Vísi að hann eigi erfitt með að draga einhverjar ályktanir af því hvernig þessar viðræður í raun ganga.
Snorri segir hins vegar að ef horft sé til markaðarins þá virðist hann líta svo á að samningaviðræður WOW Air og Indigo gangi illa.
„Flestir túlka að þetta gangi ekki eins vel og af er látið. Þú sérð viðbrögðin á markaði. Icelandair er að hækka og því virðist markaðurinn túlka að það séu vandræði á þessum samningaviðræðum og minni líkur á að samningar gangi ekki eftir. Þannig er markaðurinn að túlka það, en ég sjálfur treysti mér ekki til annars en að benda á viðbrögð á markaði og hvað þau segja,“ segir Snorri í samtali við Vísi.
Hann segir tvær sviðsmyndir í gangi fyrir Icelandair, annars vegar að Icelandair takist ekki að snúa við rekstri félagsins og þá sé mikil hætta á að það verði í verulegum rekstrarvandræðum eftir tvö ár.
Sjá einnig: Icelandair tapaði 6,6 milljörðum í fyrra

Þess vegna gæti gengi á markaði endurspeglað gang samningaviðræðnanna. Gengi Icelandair á markaði er langt undir verðmatsgengi sem miðar við þá sviðsmynd Capacent að Icelandair nái að snúa við rekstrinum. Á móti kemur er gengi Icelandair á markaði töluvert hærra sé miðað við svartsýnu spána, að Icelandair nái ekki að snúa við rekstrinum og lenda í vandræðum eftir tvö ár.
„Markaðurinn virðist túlka að það séu meiri líkur nú en áður á að samningar gangi ekki eftir og WOW muni hætta starfsemi, það kemur þá það fram í verði Icelandair.“