Viðskipti innlent

Icelandair lagt í mikla vinnu við að skoða Hvassahraun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Mynd/Vilhelm.
Icelandair hefur á eigin vegum lagt mikla vinnu í að skoða kosti nýs alþjóðaflugvallar í Hvassahrauni. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að þegar horft sé á málið áratugi fram í tímann sé það engin spurning að hagkvæmt sé fyrir þjóðfélagið og ferðaþjónustuna að hafa einn sameiginlegan innanlands- og millilandaflugvöll á suðvesturhorni landsins. Þetta kom fram í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Ein útfærslan á innanlands- og millilandaflugvelli í Hvassahrauni. Flugbrautir eru teiknaðar í brautarstefnu til að snúa beint upp í erfiðustu vindáttir, miðað við niðurstöður sem þegar liggja fyrir úr veðurfarsrannsóknum. Hér er norðvestur-suðaustur flugbraut sýnd sunnan við flugstöðTeikning/Goldberg Partners International.
Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var greint frá því að ráðamenn Icelandair vilja að haldið verði áfram að skoða þann möguleika að gert verði ráð fyrir millilandaflugvelli í Hvassahrauni. 

Sjá hér: Icelandair vill skoða Hvassahraun fyrir bæði innanlands- og millilandaflug 

„Horfandi marga áratugi fram í tímann þá held ég að það sé engin spurning að það sé hagkvæmt fyrir þjóðfélagið og ferðaþjónustuna að hafa sameiginlegan völl hér á suðvesturhorninu fyrir innanlands- og millilandaflug, þar sem er hægt að tengja þessi flug betur saman, - koma ferðamönnum betur út á land. Þannig að þessi þjónusta okkar, eigum við að segja, verði smurðari,“ segir Bogi Nils. 

„Ég held að það sé engin spurning að til lengri tíma þá er það þjóðhagslega hagkvæmt, ef við horfum til tuga ára. En þetta er mjög stór ákvörðun og fjárfesting sem þarf að fara mjög vandlega yfir.“

Flugvöllur í Hvassahrauni yrði um 20 kílómetra frá miðborg Reykjavíkur. Fjær má sjá álverið í Straumsvík og byggðina í Hafnarfirði. Norðvestur-suðaustur flugbraut er hér sýnd norðan við flugstöð.Mynd/Goldberg Partners International.
Athygli vakti í frétt Stöðvar 2 að búið er leggja talsverða vinnu í að teikna upp hvernig flugvöllur í Hvassahrauni gæti litið út. 

„Við höfum unnið talsverða vinnu hér innanhúss á undanförnum árum og niðurstöður þeirrar vinnu eru alltaf sú að þetta er hagkvæmur kostur, sem við eigum að skoða frekar. En ég ítreka enn og aftur: Þetta er mjög stór fjárfesting, stór ákvörðun, og á sama tíma erum við að fjárfesta í Keflavík. Þannig að þetta er mjög erfitt og flókið viðfangsefni,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. 

Hér má heyra frétt Bylgjunnar:


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×