Lífið

Hatari sleppur við stærstu kanónurnar

Kolbeinn Tumi Daðason í Tel Aviv skrifar
Tíu þjóðir af þeim sautján sem keppa í undanúrslitum á þriðjudagskvöldið komast í úrslitin.
Tíu þjóðir af þeim sautján sem keppa í undanúrslitum á þriðjudagskvöldið komast í úrslitin. Thomas Hanses
Hollendingum, Rússum, Ítölum, Svíum, Aserum, Svisslendingum og Maltverjum er spáð sjö efstu sætunum í Eurovision í ár. Íslandi er spáð áttunda sæti. Það gæti reynst Hatara vel að engin þjóðanna sjö sem spáð er bestu gengi er með Íslandi í riðli fyrra undanúrslitakvöldið.

Sautján þjóðir keppa í undanúrslitum þriðjudagskvöldið 14. maí og svo átján þjóðir á fimmtudagskvöldinu. Bæði kvöldin eru tíu sæti í boði í úrslitum. Hatari er því svo heppinn, ef þannig má að orði komast, að bæði eru færri að berjast við þá um sætin tíu á þriðjudagskvöldinu auk þess sem „bestu atriðin“, þ.e. þau sjö sem spáð er bestu gengi, eru annað hvort í hinum riðlinum eða sleppa við að keppa í undanúrslitum - í tilfelli Ítala.

Af þjóðunum sautján fyrra undanúrslitakvöldið spá veðbankar Íslandi áttunda sæti, Áströlum níunda sæti og Kýpur tíunda sæti.Wikipedia
Friðrik Ómar og Regína Ósk, sem kepptu í Eurovision með This is My Life árið 2008 í Belgrad, eru sammála um að fyrra undanúrslitakvöldið er töluvert veikara en það síðara. Þótt allt geti alltaf gerst þá hafa þau engar áhyggjur af því að Hatari komist ekki upp úr riðlinum.

Þau segja það vinna með Hatara að sveitin þurfi ekkert að hafa fyrir því að komast í fjölmiðla og þannig vekja athygli. Eitthvað sem skipti miklu máli upp á símakosninguna sem vegur til helminga á móti atkvæðum dómara.

„Manni sýnist þessir stærstu fjölmiðlar vilja tala við okkur og það er svolítið nýtt,“ segir Friðrik Ómar.

Upphitunarþátt Júrógarðsins má sjá hér að neðan en næsti þáttur verður sendur út frá Tel Aviv á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.