Lífið

Ætla rétt að vona að sveitaböllin lifni við áður en ég úreldist

Kristján Már Unnarsson skrifar
Halla Ólafsdóttir, bóndi í Þórisholti og rekstrarstjóri veitingahússins Svörtu fjörunnar.
Halla Ólafsdóttir, bóndi í Þórisholti og rekstrarstjóri veitingahússins Svörtu fjörunnar. Stöð 2/Einar Árnason.
 „Ég ætla rétt að vona að sveitaböllin lifni við aftur og ég geti tekið nokkur áður en ég úreldist,“ segir húsfreyjan í Þórisholti í Mýrdal, Halla Ólafsdóttir, og skellihlær. Fjallað er um mannlíf í Mýrdal, syðstu sveit landsins, í næsta þætti „Um land allt“ á Stöð 2 næstkomandi mánudagskvöld, klukkan 19.10.

Fjölskyldan í Garðakoti í Dyrhólahverfi. Vigfús Auðbertsson og Eva Dögg Þorsteinsdóttir og synirnir Auðunn Adam Vigfússon 14 ára og Bjarni Steinn Vigfússon 10 ára.Stöð 2/Einar Árnason.
Í Mýrdal hefur hefðbundinn búskapur verið að víkja fyrir ferðaþjónustu og bændur byggt upp öflugan hótel- og veitingahúsarekstur. Náttúruperlur eins og Dyrhólaey og Reynisfjara draga að ferðamenn en einnig gamalt flugvélarflak. Mýrdælingar halda þó enn tryggð við kýr, kindur, grænmetisrækt og hlunnindabúskap.

Guðni Einarsson, rófubóndi í Mýrdal.Stöð 2/Einar Árnason.
„Maður þekkir varla orðið annan hvern mann,“ segir Guðni Einarsson, rófubóndi í Þórisholti, um samfélagsbreytinguna sem fylgt hefur ferðaþjónustunni, en þau Guðni og Halla stofnuðu ásamt fleiri bændum í Reynishverfi veitingahúsið Svörtu fjöruna.

Margrét Ebba Harðardóttir og Steinþór Vigfússon á Brekkum í Mýrdal hættu kúabúskap til að byggja upp Hótel Dyrhólaey.Stöð 2/Einar Árnason.
Bændurnir á Brekkum, þau Steinþór Vigfússon og Margrét Ebba Harðardóttir, segja frá því þegar þau hættu kúabúskap fyrir aldarfjórðungi og fóru alfarið yfir í ferðaþjónustu en þau eiga núna stærsta hótel Mýrdalshrepps, Hótel Dyrhólaey.

Bændurnir í Vestri Pétursey, Hrönn Lárusdóttir og Bergur Elíasson, ásamt syninum Gunnþóri Bergssyni.Stöð 2/Einar Árnason.
Í vinnustofunni Ey Collection í Dyrhólahverfi fá nágrannakonurnar Eva Dögg Þorsteinsdóttir í Garðakoti og Þorbjörg Kristjánsdóttir á Dyrhólum útrás fyrir sköpunargleðina við margskyns handverk.

Gunnar Þormar Þorsteinsson og Þorbjörg Kristjánsdóttir búa á Dyrhólum en reka kúabú á Vatnsskarðshólum.Stöð 2/Einar Árnason.
Við kynnumst einnig blönduðum búskap í Vestri-Pétursey, tjaldhóteli á Skeiðflöt, hittum oddvitann á Loðmundarstöðum, sem kominn er í geitabúskap, og heyrum mismunandi sjónarmið heimamanna um jarðgöng í gegnum Reynisfjall. 

Hér má sjá brot úr þættinum:


Tengdar fréttir

Tjaldhótel býður gestum uppábúin rúm í tjöldum

Uppábúið rúm, náttborð og lampi er kannski ekki það fyrsta sem kemur í hugann þegar við hugsum um tjaldútilegu. Þetta er sá búnaður sem gestum býðst á tjaldhóteli í Mýrdal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.