Lífið

Senda flöskuskeyti á Töfragöngu

Fréttablaðið skrifar
43 börn hafa skrifað skilaboð í flöskuskeytið sem rekur vonandi á land.
43 börn hafa skrifað skilaboð í flöskuskeytið sem rekur vonandi á land. Fréttablaðið
Hin árlega Töfraganga verður haldin á Ísafirði í dag. Gangan hefst klukkan 10.45 við Byggðasafnið í Neðsta Kaupstað og endar við Edinborgarhúsið. Eftir gönguna verður boðið upp á töfrasýningu, söng og leiki. Síðan verða bornir fram réttir frá Pakistan, Írak, Þýskalandi, Nígeríu, Taílandi, Bandaríkjunum, Króatíu, Póllandi og Íslandi. Fólk er hvatt til að mæta í litríkum klæðnaði eða búningum.

Gangan er haldin af skipuleggjendum Tungumálatöfra, sem er námskeið ætlað 5-11 ára gömlum börnum. Tilgangur námskeiðsins er að efla íslenskukunnáttu barna af erlendum uppruna sem búa á Íslandi og íslenskra barna sem hafa alist upp annars staðar en hér á landi.

Á töfragöngunni munu 43 börn af 10 þjóðernum, sem hafa tekið þátt í Tungumálatöfranámskeiði, fleyta flöskuskeytum. „Það verður sent eitt, stórt flöskuskeyti sem þessi 43 börn eru búin að búa til saman,“ segir Anna Hildur Hildibrandsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Tungumálatöfra. Þau senda skilaboð sem þau eru búin að teikna og skrifa á renning sem verður settur í flöskuskeytið.“ Í skeytinu verða upplýsingar um Tungumálatöfra svo hver sá sem finnur skeytið getur haft samband. „Við vitum ekki hvert það rekur en erum spennt að vita hvort það komi einhvers staðar á land.“

Vaida Bražiunaite er verkefnastjóri göngunnar og námskeiðsins sem var haldið í sumar, hún segir það spennandi hvernig bæði námskeiðið og gangan sé að þróast. „Börnin læra íslensku í gegnum söng og myndlist og í ár bættist töframaður við í kennarahópinn,“ en það er töframaðurinn Einar Mikael Mánason. „Þema ársins á námskeiðinu og í göngunni á morgun er því töfrar og töfrabrögð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.